Söfn og sjávarfang í öndvegi
Söfn á Suðurnesjum hafa tekið höndum saman um að bjóða upp á sameiginlega dagskrá helgina 14. – 15. mars n.k. Söfn, setur og sýningar á svæðinu eru mörg og fjölbreytt og því verður margt á döfinni. Sameiginlegt þema helgarinnar er Söfn og sjávarfang á Suðurnesjum og til þess að auka fjölbreytni í dagskránni bjóða söfnin veitingahúsum og galleríum til þátttöku. Einnig er opið fyrir þátttöku fjölmargra annarra aðila en þeim er bent á að hafa samband við safn í sinni heimabyggð og bjóða upp á atriði í samstarfi við það. Hugmyndir eru um tónleika inni á söfnum, sýningar og margs konar uppákomur. Vonast er til þess að úr verði mjög fjölbreytt menningardagskrá, ásamt freistandi tilboðum um veitingar og afþreyingu fyrir alla fjölskylduna.
Fulltrúar allra sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum vinna sameiginlega að undirbúningi dagskrárinnar. Þeir aðilar (söfn, veitingahús, gallerí og aðrir) sem telja sig hafa fram að færa dagskráratriði sem eiga heima á safnahelginni, eru hvattir til þess að setja sig í sambandi við menningarfulltrúa sveitarfélaganna sem fyrst. Þeir eru:
Erna M. Sveinbjarnardóttir Sveitarfélaginu Garði [email protected]
Guðjón Þ. Kristjánsson Sandgerðisbæ [email protected]
Kristinn J. Reimarsson Grindavíkurbæ [email protected]
Ólafur Þór Ólafsson Sveitarfélaginu Vogum [email protected]
Valgerður Guðmundsdóttir Reykjanesbæ [email protected]
Dagskrá safnahelgarinnar verður dreift tímanlega í öll hús á Suðurnesjum auk þess sem stefnt er að mjög góðri kynningu á henni í fjölmiðlum um allt land. Hér er því kjörið tækifæri til kynningar á fjölbreyttu menningarstarfi á Suðurnesjum svo og annari þjónustu og mikilvægt að aðilar bregðist skjótt við og tilkynni um þátttöku sína. Í nóvember var haldin safnahelgi á Suðurlandi sem tókst afar vel og sóttu m.a. fjölmargir íbúar af höfuðborgarsvæðinu dagskrá hennar.
---
VFmynd/elg