Snúum bökum saman í skítkasti
Tiltillinn hér að ofan hefði verið við hæfi sem yfirskrift fundar sem sjálfstæðismenn boðuðu til undir dulnefninu sveitarfélagið Garður í Garðinum í fyrradag. Fundurinn hafði þann yfirlýsta tilgang að „hefja viðræður um atvinnumál út fyrir ramma pólitískrar umræðu og leita eftir breiðri samstöðu stjórnvalda, atvinnulífs og sveitarfélaga í landinu til að koma hjólum atvinnulífsins af stað.“
Sveitarstjórnarbarátta sjálfstæðismanna er greinilega komin í gang. Í stað þess að bjóða báða ráðherra atvinnuvega í landinu, þ.e. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og iðnaðarráðherra, var ákveðið að takmarka umræðuna við það atvinnulíf sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið, þ.e. iðnað og ferðaþjónustu. Blástakkarnir höfðu þó engan sérstakan áhuga á ferðaþjónustunni og einbeittu sér þess í stað að iðnaðinum. Í stað þess að bjóða stjórnvöldum að senda fulltrúa allra atvinnuvega á samstöðufund um atvinnulíf ákváðu fundarhaldarar að boða heldur fulltrúa ASÍ og SA til þess að gagnrýna ríkisstjórnina og tala fyrir álveri í Helguvík. Þá var Century, sem á að bjarga atvinnumálum svæðisins með óútskýrðum göldrum, með fulltrúa í pallborði. Þá var þar þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi bæjarstóri í Garði.
Blái bæjarstjórinn í Garði hefur annan hátt á en forverinn sem reyndi að gæta þess að fleiri sjónarmið og skoðanir kæmust að en bara þau sem hún sjálf aðhyllist. En svona er lýðræðið í höndum þeirra sem ekki kunna með það að fara. Til þess að koma í veg fyrir algjörlega einsleitt kall eftir álveri var Aðalheiður Héðinsdóttir frá Kaffitári fengin til þess að vera á meðal framsögumanna. Aðalheiður lagði áherslu á að gæta þyrfti að þeim atvinnuvegum sem væru fyrir hendi og efla þá. Mörg fyrirtæki ættu í vök að verjast á þessum erfiðu tímum og allir þyrftu að líta sér nær, fara yfir eigin störf og rekstur og leita leiða til úrbóta og hagræðingar til þess að skapa forskot og sækja fram til árangurs.
Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, greindi í upphafi fundar skilmerkilega frá því að ekkert væri á borðum stjórnvalda sem stoppaði áform Century í Helguvík. Jafnframt gagnrýndi hún linnulausar, ómálefnalegar og órökstuddar árásir sem hafa dunið á umhverfisráðherra. Ábendingar Katrínar komu þó ekki í veg fyrir að frá skuggaráðuneyti sjálfstæðismanna (lesist Samtökum atvinnulífsins) var spjótunum beint að „sumum“ ráðherrum ríkisstjórnarinnar, eins og fulltrúi SA kaus að orða það. Samtök atvinnulífsins hafa í gegnum tíðina kallað eftir því að stjórnvöld skipti sér sem minnst af atvinnulífinu en virðast nú hafa skipt um stefnu og hrópa á aukin ríkisafskipti.
Talsmaður Century sagði þá sem eru á öndverðri skoðun við hann í atvinnumálum vera úrtölumenn og andstæðinga atvinnuuppbyggingar. Sakaði hann þá um að fara með „dylgjur, lygar og bull“ og hélt því ranglega fram að þeir létu ekki sjá sig á fundum þeim sem hann sjálfur var á því „þeir tala bara þar sem engin er til svara“. Vonandi verður talsmaður Century sjálfur fljótur til málefnalegra svara því á það hefur skort verulega lengi. Ég óska eftir því að talsmaðurinn skýri fyrir lesendum nákvæmlega hvað sé ósatt og hvar sé dylgjað, bullað og logið í einföldum útreikningi mínum hér að neðan og í greiningu Viðskiptablaðsins 18. febrúar þar sem komist er að nánast sömu niðurstöðu.
Á heimasíðu Century er sagt að 1.500 MW séu virkjanleg á suðvesturhorni landsins. Ég nota tölu Century sem forsendu þó svo hún sé afar umdeild og líkast til allt of há. Það kemur hinsvegar ekki að sök og eftir sem áður vantar meira en helming þeirrar orku sem til þarf. Ef við tökum umrædd 1.500 MW og drögum frá þá orku sem ekki fer til Helguvíkur kemur í ljós að einugis 250 MW eru til taks fyrir álver Century. Semsagt: 1.500 MW – 720 MW (Þjórsá*) – 445 MW (Krýsuvík**) – 85 MW (Hengilssvæðið***) = 250 MW. Samkvæmt þessum einfalda útreikningi vantar 380 MW til þess að dæmið gangi upp. Í úttekt Viðskiptablaðsins 18. þ.m. er komist að nánast sömu niðurstöðu, að Century vanti að óbreyttu um 360 MW. Það er brýnt að fulltrúi Century skýri gaumgæfilega hvar Viðskiptablaðið og undirritaður fara með ósannindi, dylgjur og bull. Eins væri gott að fá að vita hvert fulltrúi Century hyggst sækja þau 360-380 MW sem út af standa því þó þráfaldlega hafi verið spurt hefur því enn ekki verið svarað hvaðan orkan eigi að koma. Iðnaðarráðherra kallar eftir þessum sömu upplýsingum í viðtali við vf.is þar sem hún segir orkufyrirtækin þurfa að fara að svara því hvaðan orkan eigi að koma.
* Samkvæmt forsendum Century eru 760 MW virkjanleg í Þjórsá. Stefna Landsvirkjunar er hinsvegar að selja ekki meiri orku til nýrra álvera á SV horninu.
** Krýsuvík er í landi Grindavíkur, Hafnarfjarðar og Voga. Sveitarfélögin, sem fara með skipulagsvaldið hafa ekki lýst því yfir að þau hyggist afhenda þessa auðlind sína til Century. Grindavík hefur þar að auki sett fram auðlindastefnu þar sem horft til þess að nýta orku innan sveitarfélagsins. Century gerir ráð fyrir 445 MW í Krýsuvík. Rannsóknaboranir gefa ekki tilefni til slíkrar bjartsýni og benda til þess að 445 MW sé ofmat á afkastagetu svæðanna.
*** Hverahlíðavirkjun er áætluð 90 MW. Þar af fari 85 MW til Kísilverksmiðju í Ölfus. Samkvæmt þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar stendur ekki til að reisa nýjar virkjanir á Hengilssvæðinu næstu þrjú árin.
Bergur Sigurðsson,
framkvæmdastjóri þingflokks VG