Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Snúa vörn í sókn
Sunnudagur 29. mars 2020 kl. 12:22

Snúa vörn í sókn

Hugleiðing líðandi stundar

Sókn er besta vörnin

Fyrirtækið okkar er núna um hálfs árs, við erum rétt að komast yfir það að vera búin að stofna fyrirtæki og það er að gerast. Sú hugsun er nýfarin að setjast að í huganum og hjartanu. Þá þurfum við eins og svo margir aðrir fyrirtækjaeigendur að skella í lás, samkomubann vegna Covid-19 og fyrirtækið þarf að loka. Við vorum alveg róleg yfir því, enda algerlega úr okkar höndum og ekkert sem við gátum gert til þess að halda því opnu. Eftir að við lokuðum þá hef ég verið að velta ýmsu fyrir mér eins og hvernig við förum að næstu mánaðarmót, við höfum þurft að segja upp öllu starfsfólki sem betur fer hefur sýnt mikinn skilning og bara allskonar búið að ganga á en ég hef verið róleg innra með mér, hugsað með mér þetta mun taka enda eins og allt sem ég hef gengið í gegnum frá því að þetta fyrirtæki var aðeins hugmynd þá mun þetta einnig taka enda og við komast út úr þessu og getum opnað fyrirtækið á ný. Hugsunin mín alveg þangað til í nótt hún náði einhvern veginn ekki lengra. Að sjálfsögðu hef ég áætlun með fyrirtækið og ég og maðurinn minn talað saman og sett upp hvernig við viljum sjá þetta barn okkar vaxa úr grasi og verða fullorðið en hjá mér var það alltaf einhvern veginn í hausnum á mér, get ekki orðað það betur.

Þangað til í gær, ég leggst upp í rúm, ótrúlega mikill friður yfir mér. Ég ligg bara og hugurinn er að veltast fram og til baka um heima og geima. Ekkert sérstakt, þá allt í einu birtast þessi orð. „Sókn er besta vörnin“. Ég stoppa og endurtek þessi orð margoft í huganum, byrja að velta þessu fyrir mér í fótboltanum. Já, auðvita ef lið liggur bara í vörn þá er nú mjög ólíklegt að það skori mark og enn minnir líkur á því að liðið vinni leikinn. En ef þeir vaða áfram í sókn þá er alltaf meiri möguleiki á marki og meiri möguleiki á sigri. Bara við þessa hugsun þá opnast bara eitthvað fyrir mér og ég set fyrirtækið mitt inn í þessi orð, við nýbúin að loka, í raun bara komin í vörn þangað til við megum opna á ný sem við höfum ekki hugmynd um hvenær verður. Nema að ég sé sóknina fyrir fyrirtækið mitt bara teiknaða upp eins og á teikniborði og ég fyllist svo mikill gleði og það meikar svo mikinn „sens“ fyrir mér. Ég hugsa bara vá, auðvita, auðvita er ég að fara að gera þetta. Þarna fékk ég bara bullandi sóknarleik og erum við að fara að byrja sóknina strax í dag. Sannfæring mín með fyrirtækið okkar er að ef ég er í bullandi sókn og skipulagningu þangað til ég má opna aftur þá verður fyrirtækið líka fljótt að fara á flug og ná næsta þrepi, kannski að verða að ungling. Í stað þess að við höldum okkur í vörninni og opna svo fyrirtækið út frá því þá verðum við á sama ef ekki verri stað heldur en þegar við skelltum í lás.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég veit líka að ef ég er að hugsa þetta þá eru pottþétt fleiri fyrirtækjaeigendur sem þetta á við um. Þess vegna fannst mér ég þurfa að koma þessu frá mér. Frá því fyrirtækið var aðeins hugmynd í huga okkar mannsins míns þá hefur farið fram gríðarlegur þroski. Ég er á engan hátt sama manneskja og ég var fyrir hálfu ári. Það hefur teygst og togast á manni á stöðum sem maður hélt að væri ekki hægt að teygja. Við höfum lent í milljón holum, lokuðum hurðum, lent á veggjum, alveg verið við það að gefast upp en það bara var aldrei valkostur. Ég var farin fram að bjargbrúninni og komin of langt með að stofna fyrirtækið að það var ekki lengur hægt að snúa við. Ég varð bara að halda áfram. Ég hef líka verið alin upp við þannig hugsanahátt að maður gefst bara ekki upp. Þannig að við hver mistök sem maður tók í byrjun, hver svik, hverja bið, hverja endurtekningu gafst ég ekki upp heldur bara hélt áfram daginn út og daginn inn. Í hvert skipti svo sem ég komst í gegnum hlutina þá lærði ég svo mikið. Fékk nýjan þroska, nýja sýn, nýja vini, vinir fóru og allskonar. Einn náinn maður sem ég lít mikið upp til hann sagði af hverju leitaðir þú ekki til mín fyrr? Hann vildi auðvita ekki horfa upp á mig lenda í öllu sem ég lenti í og forða mér frá því. En í dag veit ég að þetta þurfti að gerast. Þetta var mitt fyrirtæki og til þess að ég geti rekið það eins og ég á að gera þá þurfti ég þennan skóla við að koma því á fót.

Það eru svo margir skemmtilegir frasar sem öðlast hafa nýja merkingu í hjarta mínu vegna þess að maður hefur upplifað það á eigin skinni. Eitt hérna, „þolinmæði þrautir vinnur allar“. Hahaha vá hvað ég hef lært mikla þolinmæði og já það sigrar sko sérhverja þraut að vera þolinmóður. Fyrst var ég að reyna að vera þolinmóð ef ekki eitthvað gekk eins og ég ætlaði að láta það ganga en var samt að tryllast inn í mér af pirringi. Svo bara hélt áfram að reyna endalaust á þolinmæðina frá öllum mögulegum sjónarhornum þangað til ég komst allt í einu á þann stað að upplifa raunverulega afslappaða þolinmæði vegna þess að ég hef lært á þessum mánuðum að hlutirnir gerast eins og þeir eiga að gerast en ekki eins og ég hef ákveðið að ég vilji að þeir gerist. Það var gríðarlegur skóli að fatta það og sættast við það. Eitt sem ég lærði líka á þessum tíma var að oft þegar dimmast var og öll von næstum úti þá allt í einu bara oft úr óvæntustu átt sem ekki séns var að hjálp bærist kom hjálpin og það birti aftur til og allt varð gott. Þetta gerðist svo oft (hef greinilega þurft að læra þetta extra vel hehe) að núna þegar mér finnst eitthvað dimmt eins og að loka fyrirtækinu þá hugsa ég bara og veit að þetta verður allt í lagi. Það er búið að redda þessu þó að ég sjái það ekki alveg strax. „Það birtir upp um síðir“ Ekki endilega þegar ég vil að það gerist en það gerist samt og þá gerist það á fullkomnasta tímanum. Eitt dæmi: Ég var búin að ráða einn starfskraft í byrjun, svo bara átti hann að byrja daginn eftir, fæ ég ekki símtal að þetta gangi ekki upp hjá honum. Ég bara byrja að „panikka“ (ekki alveg búin að mastera þolinmæðina) ríf upp símann og ætla að fara að skoða þá sem höfðu sótt um. Á sömu sekúndu og ég geri það labbar ekki þessi líka sólargeislinn skælbrosandi inn og segir; „ég var að hugsa um að sækja um vinnu hjá ykkur.“ Í dag er þessi starfskraftur alger klettur og ég hef eignast nýjan frábæran vin.

En aftur að sóknin er besta vörnin þá er ég gríðarlega spennt fyrir framhaldinu og ætla að undirbúa sóknina að fullum krafti þar til ég get opnað barnið mitt aftur og komið því í bullandi gang.

Skora á aðra fyrirtækjaeigendur að gera slíkt hið sama.

Ást og friður.
Marý Linda Jóhannsdóttir