Smjör á hverju strái

Ég fékk einhvern veginn á tilfinninguna í gærkvöldi að starfræksla kísilvera væri hollur iðnaður. Svona svipað og rjóma og smjörframleiðsla. Enda lak heitt smjörið út um varir frummælendanna þar sem þeir stóðu keikir með glærusýningar sína og boðuðu okkur sama fagnaðarerindi sem svo oft hafði heyrst á svölum Hljómahallarinnar. Nú byggjum við nýtt fjögurra ofna kísilver sem bæði verður fallegt og mengar ekkert. Nú voru komnir nýir menn og konur sem gátu gert allt það sama og gert hafði verið áður. Bara svo miklu, miklu betur. Reykur þótt hann lyktaði var ekki lengur óhollur og háar byggingar myndu ekki lengur sjást.
 
Þeim fannst það vond meðferð fjármuna að rífa það sem komið er upp niður. Það hefðu verið lagðir í þetta of miklir peningar og nánast óábyrgt gagnvart félögum þeirra lífeyrissjóða er sem þegar hafa tapað milljörðum á verkefninu, að láta ekki blautustu drauma fjárfestanna verða að veruleika. Það verða jú fjárfestarnir í Kaupþingi sem fá allt sitt til baka verði draumar þeirra að veruleika. Byggingarverktakar, bæjarfélagið, og lífeyrisjóðirnir geta svo kennt þeim pólitíkusum sem ákváðu þetta í upphafi að hafa ekki kynnt sér hverjir framkvæmdamenn verkefnisins væru. Það vissu reyndar allir. Raðhúsabyggingarfræðingur frá Rödovre i Danmörku, sem að sögn var einnig góður dýfingarmaður.
 
 Minna er þó vitað og nánast útilokað að finna út úr því hverjir þeir fjárfestar sem nú standa að baki eru enda Arion banki áður Kaupþing og þar áður Búnaðarbanki. Draumastaður þeirra sem lítið vilja láta fyrir sér við sína iðju að græða peninga í reykfylltum bakherbergjum. Þetta eru svona vogunarsjóðir sem vita lítið um rekstur kíslilvera, en þess betur um allskonar skrýtna fjármálagörninga. Einverjir svona Dekhill Advisors vogunarsjóðir  eins og komu að sölu Búnaðrbankans sáluga.
 
Myndefni frumælandanna var líka nokkuð sérstakt, tölvumyndir með linsu sem gátu ekki sýnt hlutina í réttum stærðum. Samt vilja þeir að við trúum því að þeir séu fagmenn til að byggja og breyta verkmiðju sem á eftir að spúa milljónum tonna af allskonar hættulegum efnum út í andrúmslofið án þess að nokkur hætta skapist af. Væri ekki bara ágætt að þessir menn beittu sér fyrst að minni hættulegum verkefnum eins og að læra á hvernig linsurnar í tölvumódelinu virkar?
 
Það sem mér fannst þó verst í allri smjörframleiðslu frummælenda var að þeir vildu bara ekki skilja meginatriði málsins, sem er í ljósi fenginnar reynslu vill stór hluti í Reykjanesbæ ekki verða hluti af lýðheilsutilraunum stóriðjunnar, né heldur að milljón metra reykháfar verði helsta kennileiti bæjarins, jafnvel þó á hinum endanum hangi loforð eins frummælandans um að skuldir fyrrum eiganda við bæinn verði borgað af næsta eiganda á eftir honum.
 
Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson,
íbúi í Reykjanesbæ.