Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Slökkviliðsmenn og heilsubrestur
Sunnudagur 21. maí 2023 kl. 06:39

Slökkviliðsmenn og heilsubrestur

Mikið álag hefur verið á slökkviliðsmönnum upp á síðkastið. Stórbruni var í Hafnarfirði. Eldur í skipi í Sandgerði og eldur í skipi í Njarðvík þar sem einn skipverji lést og annar slasaðist alvarlega. Eldsvoðar í skipum eru sérlega hættulegir og í Njarðvík voru þrír slökkviliðsmenn Brunavarna Suðurnesja hætt komnir við slökkvistörf. Slökkviliðsmenn eru útsettir fyrir starfsumhverfi sem vísindalega hefur verið sannað að eykur líkur á heilsubresti. Þannig eru slökkviliðsmenn allt að tvöfalt líklegri til að fá ákveðnar tegundir krabbameina samkvæmt rannsóknum.

Þrátt fyrir miklar forvarnir og betri útbúnað slökkviliðsmanna við slökkvistörf eiga þeir aldrei möguleika á að verja sig fullkomlega gegn krabbameinsvaldandi efnum í reyk sem myndast við bruna. Í Kanada, Bandaríkjunum og Ástralíu eru um fimmtán tegundir af krabbameinum skilgreind sem atvinnusjúkdómar hjá slökkviliðsmönnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir tveimur árum flutti ég breytingartillögu á Alþingi við frumvarp til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga. Lagði ég til hvaða gerðir krabbameina skuli teljast bótaskyldir atvinnusjúkdómar hjá slökkviliðsmönnum. Vísaði ég til erlendra rannsókna og lagaframkvæmd í áðurnefndum löndum hvað það varðar. Tillagan var felld og er það miður. Þáverandi heilbrigðisráðherra gat þess hins vegar í umræðu í þinginu um málið að þessu yrði kippt í lag í reglugerð og því væri breytingartillagan óþörf. Reglugerðin hefur síðan litið dagsins ljós, tveimur árum síðar. Í stuttu máli er niðurstaðan þessi.

Ekkert er minnst á slökkviliðsmenn. Ekkert er fjallað um hvort og þá hvaða starfsstéttir geti hugsanlega verið útsettari fyrir því að greinast með sjúkdóma vegna atvinnu og starfsumhverfis. Þetta er þvert á það sem var lofað og eru kaldar kveðjur til slökkviliðsmanna sem hætta lífi sínu í þágu borgaranna.

Á Alþingi fyrir skömmu skoraði ég á heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, sem setur reglugerðina, að standa við gefin loforð og tryggja að í henni verði tiltekin krabbamein viðurkennd sem atvinnusjúkdómur slökkviliðsmanna.

Birgir Þórarinsson, alþingismaður.