Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Slælega að verki staðið
Fimmtudagur 5. október 2006 kl. 17:03

Slælega að verki staðið

Það verður að teljast slælega að verki staðið að ekki sé enn búið að stofna hlutafélagið sem stofna átti um eignirnar á varnarsvæðunum, sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingar, í þingræðu sinni í gær þegar varnarmálin voru til umfjöllunar.

„Hugmyndin um að stofna hlutafélag sem tæki yfir eignirnar hlýtur að hafa verið uppi um alllangan tíma og maður hefði haldið að stofnun þess færi fram samhliða því að Íslendingar fengju eignir og land afhent. Það kemur svo sem ekkert á óvart að ekki sé búið að stofna félagið þegar maður lítur til þess hvernig öll önnur vinnubrögð hafa verið í kringum samningana. Meðan félagið er ekki stofnað standa eignirnar yfirgefnar og engum til gagns og hlýtur það að vera krafa heimamanna að kraftur verði settur í þetta ferli þannig að hinni löngu óvissu um hvað taki við fari að ljúka,” sagði Jón ennfremur í ræðu sinni.

Jón segir að sveitarfélögin á Suðurnesjum þurfi að að koma enn frekar að stofnun og stjórnun þess félags sem nú er í burðarliðnum. Það  sé ekkert annað en eðlilegt að þau verði jafnframt eignaraðilar á móti Ríkinu í ljósi þess að byggðin á Vellinum, og starfsemi sem þar hefur farið fram, hefur verið mikill áhrifavaldur á þróun og uppbyggingu byggðar neðan varnarsvæðisins.

„Það er nöturlegt að horfa upp á starfsmenn sem hafa meira og minna allan sinn starfsaldur unnið hjá varnarliðinu vera sagt upp með skömmum fyrirvara án þess að vinnuveitandi gerði ráðstafanir til að milda höggið sem því fylgir að verða skyndilega atvinnulaus. Íslensk stjórnvöld virðast ekki hafa lagt neina áherslu á að gæta hagsmuna starfsmanna í samningunum.
Ég hef spurt að því hvort ekki sé eðlilegt að hið nýja hlutafélag um vallareigur skoði möguleika á því að koma að starfslokasamningum starfsmanna. Gaman væri að fá svar við því,“ sagði Jón í ræðunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024