Skýrir valkostir
Á laugardaginn stendur valið milli skýrra valkosta. Við getum valið okkur fulltrúa til starfa á Alþingi sem við teljum muna vinna heiðarlega og í þágu fólksins í landinu. Einstaklinga sem við treystum til að vinna af dugnaði og réttsýni. Fólk sem hefur kjark til að takast á við kerfið og spillingu.
Jöfnuður eða ójöfnuður
Ég er sannfærð um að samfélag jafnaðar sé sterkara og réttlátara en samfélag ójafnaðar. Við berum ábyrgð á náunganum og eigum að láta okkur velferð annarra varða. Það er óásættanlegt að raunveruleg fátækt skuli fyrirfinnast í landi þar sem allt er til alls og ríkidæmi sumra virðast engin takmörk sett. Fyrirheit um að lækka samfélagslegar byrðar af þeim sem hve mest hafa milli handanna og afnám veiðigjalds er fyrirheit um aukna misskiptingu í íslensku samfélagi. Aukinn ójöfnuð og óréttlæti. Vinstri græn telja sanngjarnt að þeir tekjumeiri greiði meira til samfélagsins og að þjóðin njóti arðs af auðlind sinn. Þannig getum við búið til velferðarsamfélag sem tryggir öllum aðstoð læknis, lögreglu og annarrar grunnþjónustu óháð búsetu og efnahag.
Umhverfisvernd eða stóriðjustefna
Fyrirheit um breytingu á rammaáætlun þannig að virkjanakostir í neðri hluta Þjórsár verði settir í nýtingarflokk eru áform um stóriðjustefnu. Áform um nýtingu orkunnar til að reisa stórt álver er til marks um einhæfa stefnu í atvinnumálum sem leiðir af sér sóun á mannauð, spillingu á ósnortinni náttúru og eyðileggingu á einstöku lífríki. Við verðum að geta treyst því að lýðræðislega kjörnir fulltrúar á Alþingi séu ekki að gæta sérhagsmuna þegar kemur að ákvarðanatökum sem þessum heldur að þeir séu talsmenn almennings. Það er þeirra hlutverk að vera rödd fólksins í landinu og líka þeirra sem enga rödd hafa, eins og náttúrunnar og komandi kynslóða. Vinstri græn vilja fjölbreytta atvinnuuppbyggingu í sátt við umhverfi og náttúru. Atvinnustefnu sem byggir á nýsköpun, þekkingu og reynslu fólksins í landinu.
Heiðarleg stjórnmál
Gamaldags refapólitík og klækjabrögð verða að víkja fyrir heiðarlegum stjórnmálum sem snúast um almenning en ekki stjórnmálamennina sjálfa. Það að stjórnmálaflokkar á Íslandi skuli leyfa sér að ganga óbundnir til kosninga er hinn mesti ósiður og er engum til hagsbóta nema stjórnmálaflokkunum sjálfum. Það á að vera sjálfsagt að kjósendur fái að vita hvort sá flokkur sem þeir hyggjast kjósa vilji starfa í anda félagshyggju eða einstaklingshyggju, jafnaðar eða ójafnaðar, umhverfisverndar eða stóriðjustefnu, almannahagsmuna eða sérhagsmuna. Það er alveg skýrt hvað ég vil. Ég vil félagshyggjustjórn – ég vil Vinstri græn.
Arndís Soffía Sigurðardóttir
lögfræðingur skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna