Skynsamleg skref í umhverfismálum
Í umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar sem samþykkt var í lok apríl á síðasta ári eru útlistuð skýr markmið um hámörkun orkunýtni, t.d. með aukningu á LED-lýsingu. Þar kemur einnig fram að Reykjanesbær muni skuldbinda sig til að nota 100% endurnýjanlega orku í samgöngum innan bæjarmarka fyrir árið 2030. Ég beitti mér mikið í vinnu við þessa skýrslu Reykjanesbæjar sem fulltrúi stýrihóps bæði framtíðarnefndar og umhverfis- og skipulagsráðs sem hafði umsjón með mótun tillögu stefnunnar sem er metnaðarfull og nær til ársins 2035.
Á síðasta fundi í framtíðarnefnd Reykjanesbæjar undir liðnum aðgerðaráætlun í umhverfis- og loftslagsmálum skrifaði ég bókun sem allir í nefndinni tóku undir: „Framtíðarnefnd samþykkir aðgerðaráætlun fyrir sitt leyti og telur brýnt að LED-væðingu í sveitarfélaginu verði flýtt. LED-lamparnir bjóða upp á mun betri stýringu, betri endingu, langtum minni viðhaldsþörf, vinnusparnað og orkusparnað upp á um 70%. Talið er að rekstrarkostnaður muni lækka um helming og fjárfestingin borgi sig upp á fimm, sex árum. Skilyrt verði að einungis grænir orkukostir komi til greina þegar kemur að næsta útboði almenningssamgangna í Reykjanesbæ í samræmi við stefnu sveitarfélagsins. Skýr markmið og aðgerðir auðvelda öllum aðilum undirbúning fyrir breyttar áherslur þegar samningar verða lausir.“
Við sjálfstæðismenn höfum beitt okkur fyrir því allt kjörtímabilið að ráðast í LED-væðingu í sveitarfélaginu í samræmi við okkar stefnuskrá og erum ekki ein um það að hafa bent á þessa einföldu og skynsömu leið. Umhverfissvið hefur að vísu aðeins hafið þessa vinnu en er langt frá takmarkinu og gengið hefur treglega að fá stuðning meirihlutans til að halda verkinu áfram. Nú hafa nokkur önnur sveitarfélög klárað LED-væðingu þar á meðal nágrannar okkar í Grindavík og þar hefur rekstrarkostnaður götulýsingar lækkað um helming. Hér er verið að leggja til leiðir sem eru einfaldar, liggja beint við og spara sveitarfélaginu hundruð milljóna til lengri tíma. Það er með öllu óskiljanlegt að ekki sé búið að klára þetta fyrir löngu síðan. Við þurfum að stíga þessi skref bæði fast og ákveðið – þau eru hagkvæm, græn, skynsöm og löngu tímabær.
Ríkharður Ibsen,
varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.