Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Skýjaborgin hrunin
Föstudagur 17. september 2010 kl. 09:30

Skýjaborgin hrunin

Það er öllum ljóst að hæstlaunaðasti bæjarstjóri landsins, Árni Sigfússon í Reykjanesbæ, er á bólakafi í vondum málum. Kemur okkur sumum ekki á óvart. Það er vissulega gott að hafa háleit markmið, en það verður að vera innistæða fyrir þeim. Maður byggir þannig ekki upp öflugt atvinnulíf á óskhyggju einni saman.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir átta árum hófst hann handa við að byggja skýjaborg úr vanefnum. Ævintýrið var fjármagnað með sölu nánast allra fasteigna bæjarins; skólum, sundlauginni og orkuveitu svo nú er ekkert eftir nema bókfærðar litlar eignir í félögum úti í bæ. Allt var þetta gert í kærleiksanda einkavinavæðingarinnar, meðal annars með aðstoð og ráðgjöf hvítflibbakrimmans Bjarna Ármannssonar. Fjárfest var í götusteinum og grjóti meðfram ströndinni. Íþrótta- og tónlistahallir og akademíur teknar á langtímaleigu, eytt og spreðað og glansmyndin fægð.

Bæjarstjórinn telur sig enn standa vel og eiga t.d. skuldabréf í Geysi Green að sjö milljarða virði þótt líklega fengjust aðeins tveir milljarðar fyrir bréfin ef kaupandi fengist. Bæjarstjórinn talaði um milljarða hagnað af rekstri bæjarins í kosningunum í vor en tónninn er annar í Víkurfréttum í gær þegar hann segir: ,,við höfum byggt upp góða innviði og ekki bruðlað með fjármuni.......þótt skatttekjurnar einar hafi ekki nægt fyrir kostnaði.“

Hinn mikli hagnaður er sem sagt rokinn út í vindinn yfir bergið og galtóma Helguvíkina, þar sem sjávarlöðrir leikur við skuldumvafna höfn. Hafnarsjóður getur ekki staðið í skilum, ekki frekar en Víkingasafnið, Kappakstursbrautin, Íþróttaakademían, Stapahöllin, Fasteignafélagið og HS-Orka sem öll áttu að vera máttarstólpar skýjaborgarinnar.

En bæjarstjórinn er hvergi banginn. Hann blæs í herlúðra og varpar ábyrgðinni á ríkisstjórnina um vanda okkar Suðurnesjamanna. Hvílík öfugmæli! Honum færi betur að líta í eigin barm. Ég minnist þess þegar bæjarstjórinn talaði digurbarkalega um það að landslýð eða ríkisstjórn kæmi ekki við þótt tvö frjáls og sjálfstæð fyrirtæki og sveitarfélag gerðu með sér viðskiptasamninga. Annars vegar Hitaveita Suðurnesja, sem bæjarstjórinn sjálfur veitti formennsku og Norðurál um álver í Helguvík. Nú er komið á daginn að álverið í Helguvík var illa ígrunduð framkvæmd af HS þar sem láðst hafði að tryggja verkefninu næga orku í tíma og við það situr. Rétt eins og Magnesíum verksmiðjan, pípuverksmiðjan, saltverksmiðjan, gagnaverin og fleiri draumsýnir bæjarstjórans reyndist Helguvík vera óskhyggja í svo fögrum umbúðum að umhverfið lét blekkjast.

Fagurgalinn kom bæjarfélaginu fram á bjargbrúnina. Og hvað er nú til ráða? Jú nýjasta nýtt er að starfsmenn sveitarfélagsins axli ábyrgð á sukkinu og taki á sig 20% launalækkun ofan í atvinnuleysið og kjaraskerðinguna sem flokksbræður bæjarstjórans bera fyrst og fremst ábyrgð á með efnahagshruninu. Það hrun og skelfilegar afleiðingar þess hér á Suðurnesjum er auðvitað sömu ættar og sú pólitík sem Árni Sigfússon og Bjarni Ármannsson standa fyrir.

Við Reyknesbæingar getum fátt eitt gert annað en látið okkur leiðast yfir því að hafa kosið þetta rugl yfir okkur og vonað að æðri máttarvöld grípi í taumana og setji bæjarstjórann af og skipi okkur tilsjónarmann. Því fyrr því betra.

Skúli Thoroddsen,
íbúi í Keflavík.