Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Skurðstofur skornar burt
Miðvikudagur 26. nóvember 2008 kl. 13:53

Skurðstofur skornar burt



Undanfarið hafa landsmönnum borist af því fréttir að fjármálaráðuneyti hafi sent út tilmæli til stofnanna ríkisins um að nú skuli sparað 10% hjá öllum ráðuneytum ríkisins. Heilbrigðisráðherra hefur áframsent þessi tilmæli  og að því er virðist ásamt skýrslu  eða úttekt um hvar skuli sparað.
Hann róar almenning í blöðunum, og segir að þessi sparnaður komi ekki til með að skerða þjónustuna, heldur jafnvel bæti hana ef eitthvað er. Nú verði leitað samstarfsaðila við reksturinn.  Hann talar í frösum sem hann veit fullvel að enginn innistæða er fyrir.

Nú er það ljóst að þær sparnaðartillögur sem forstöðumönnum heilbrigðistofnanna er ætlað að skila inn, koma ekki til með að byggja á mati viðkomandi forstöðumanna, heldur á úttekt og skýrslu ráðuneytisins um hvað skuli  gert. Forstöðumönnunum er gert að kostnaðargreina þær ráðstafanir. Ráðherra segir þær tillögur  til athugunar á sama tíma og hann veit að ákvörðunin hefur verið tekinn. Ábyrgðinni á ákvörðun ráðuneytisins kastar hann svo yfir á forstöðumenn stofnanna sem neyðst  geta til að undirskrifa kostnaðargreininguna sem sínar tillögur.

Þessar svonefndu tillögur  eru svo miklar tillögur að starfsfólki  á skurðstofu HSS hefur verið tilkynnt  að huga að starfslokum sínum, svo það þýðir lítið að bera því við að hér sé eingöngu um óákveðnar tillögur að ræða. Skerðing á þjónustu HSS  er að verða staðreynd verði ekkert að gert.
Á síðastliðnu sumri sendu stjórnendur HSS út neyðarkall til ráðuneytis um bága fjárhagsstöðu stofnunarinnar og tillögur til sparnaðar. Þær tillögur voru stöðvaðar af ráðuneytinu, enda litið svo á að þar væri verið að ganga á þá grunnþjónustu  sem íbúar svæðisins ættu rétt á lögum samkvæmt. Félag eldri borgara á Suðurnesjum og Styrktarfélag sjúkrahússins ályktuðu um þær ráðstafanir á síðastliðnu sumri. Ráðuneytið lofaði að fjárhagstaða stofnunarinnar yrði bætt við næstu fjárlagagerð. Það hefur ekki verið gert. Og nú er krafist 10% niðurskurðar. 

Niðurskurðar af hverju? Fjárframlögum sem viðurkennt er af bæði fjármálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti að eru of lág til að standa undir þeirri grunnþjónustu sem ríkinu er ætlað að veita. Öllum er ljóst að einhver staðar verður að spara, okkur er líka ljóst að þar verður að gæta sanngirni og skynsemi. Og við hér á Suðurnesjum skulum ekki láta okkar eftir liggja í ráðdeildinni og sparnaðinum, þegar ljóst verður að við njótum sömu fjárveitinga til heilbrigðismála og aðrir íbúar þessa lands. Þangað til er það ekki hægt af öryggis- og sanngirnissjónarmiðum .

Verði þessar svonefndu tillögur að veruleika er öllum  ljóst að mikil og alvarleg skerðing verður á þeirri grunnþjónustu sem íbúum eiga að vera tryggð lögum samkvæmt.
Þannig mun til að mynda starfsemi fæðingardeildar    lognast út af með árunum, þar sem ekki mun verða hægt að treysta á deildina komi upp vandamál í fæðingu, og það hefur oft gerst. Hefur ráðherrann bak til að standa undir þeirri ábyrgð að einhver komi til með að láta líf sitt vegna þessa?
Ein meginrök ráðherrans  fyrir lokun skurðstofanna eru að LSH geti tekið á móti þeim skurðaðgerðum sem nú eru framkvæmdar á HSS og HSU( Heilbrigðistofnunar Suðurlands) á sama tíma og LSH  er gert að spara einnig um 10%. Hér sé það skilvirknin sem skipti máli. Er fæðingardeildin á LSH einnig tilbúin til að taka við öllum fæðingum frá Suðurnesjum og Suðurlandi?  Er yfirleitt til nægur fjöldi sjúkrabifreiða til að taka þátt í framtíðarsýn ráðherrans hvað varðar Suðurnes og Suðurland ?
 
Nú hefur það verið lengi ljóst að heilbrigðisráðherrann hefur lengi verið þeirrar skoðunar að markaðsvæða ætti heilbrigðiskerfið og færa að í átt að amerískri  fyrirmynd þar sem kerfið er að miklu leyti einkarekið. Þær áherslur eiga ekki við lengur, og eru ekki það svar sem við íbúar landsins trúum á að leysi vandann.  Fyrir því eru fordæmin of mörg. Sú stefna hans er gjaldþrota .
Ráðherra og ráðuneyti má vera það fulljóst , að verði það niðurstaðan að skurðstofum á HSS  verði lokað verður  því ekki tekið með þegjandi þögninni sem ráðherranum er svo vel við, því nú þegar hafa menn bundist samtökum um að berjast fyrir því velferðarkerfi sem hér hefur verið skapað,verði boðuð skerðing niðurstaðan.  Samfélögin á svæðinu munu ekki una því að grunnþjónusta svæðisins verði skert, og HSS verði svæft sökum skilningsleysis . Fyrir henni verður barist.

Hannes Friðriksson
íbúi í Reykjanesbæ.     
             

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024