SKÚLI THORODDSEN SKRIFAR: ERÓTÍKIN, - VANDI BÆJARSTJÓRNAR
Höfnun bæjarstjórnar á áfengisveitingaleyfi til handa Jóni Magnúsi Harðarsyni hefur orðið tilefni blaðaaskrifa. Síðasta tölublað Víkurfrétta gerir úttekt á málinu undir fyrirsögninni “Klúður hjá bæjarstjórn” þar sem koma fyrir stór orð um ólögmæta ákvörðun, þvingun bæjarstjórnar og valdníðslu að veita ekki vínveitingaleyfi fyrir nekrardansstað Jóns í Gróf. Kjartan Már Kjartansson, (B-lista) varaforseti bæjarstjórnar sér ástæðu til þess að útskýra fyrir bæjarbúum af hverju hann var fylgjandi leyfinu. Það er vegna þess að annars hefði hann þurft að brjóta lög og sem ábyrgur bæjarfulltrúi gat hann það ekki. Mér þótti sjónarmið bæjarfulltrúans merkilegt. “Það hefur ekkert að gera með hvað mér finnst um nekrtardansstaði almennt. Við verðum að fara eftir gildandi lögum hverju sinni. Bæjarfulltrúar geta ekki leyft sér að brjóta lög eða reglu eða halda að bæjarstjórn eigi að vera siðgæðissamviska bæjarbúa.” segir Kjartan Már.Lögfræði er fræðigrein sem fæst við að lýsa og skýra réttinn. Stundum er vandséð hver er rétt niðurstaða í máli og leita þarf til dómstóla um ágreining manna, sé önnur leið ekki fær. Sveitarstjórnir hafa ákveðnum skyldum að gegna þótt stundum sé vandratað til réttrar niðurstöðu svo öllum líki. Samkæmt áfengislögum skal sækja um leyfi til áfengisveitinga á veitingastað til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi. Það er á valdi bæjarstjórnar að veita leyfi eða gera það ekki, en sveitarstjórn skal rökstyðja niðurstöðu sína og gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem henni réðu. Við endurnýjun leyfa má haga gildistíma þeirra með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af veitingarekstrinum. Það er tilgangur löggjafans með þessum ákvæðum að gera sveitarstjórnum mögulegt að geta stýrt eða haft áhrif á þróun skemmtana- og veitingarekstrar í hverju sveitarfélgi fyrir sig og grípa inn í þá atburðarás ef til óheilla horfir t.d.um vímuefnaneyslu, vændi eða ef reksturinn truflar almannarfrið. Í hegningarlögum segir að “hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en fangelsi allt að 6 mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt.” og “ Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt.” Af þessu má sjá að það getur reynst þrautin þyngri að vera sveitarstjórnarmaður þegar einhver vill fá sér vínveitingaleyfi til að styðja við erótíkina að sínum skilningi í bænum. Kjartani Má er vorkunn í sínum vanda.Tilgangur Jóns í Grófinni er að selja nekt, efna til leiks sem getur sært blygðunarsemi manna. Að hafna því er ekki lögbrot heldur sýnist mér bæjarstjórn vera að hafna stuðningi við starfsemi sem getur varðað við lög, verið lögbrot eða brot á almennu siðgæði. Varla ætlar Kjartan sér slíkt, eða hvað? Það er ekki ætlan mín að leggja mat á ákvörðun bæjarstjórnar, það er annarra þurfi til þess að koma, en hún virðist rétt miðað við yfirlýstan tilgang umsækjanda en e.t.v. röng út frá almennum forsendum. Heimilt er að bera ákvörðun sveitarstjórnar undir úrskurðarnefnd um áfengismál sem úrskurðar um ágreininginn.Kjartan Már hefur af því áhyggjur að ólögmæt ákvörðun bæjarstjórnar muni baka bæjarsjóði kostnað. Að því geti hann ekki staðið. Ábyrgð bæjarfulltrúa sem höfnuðu umsókninni er mikil að hans mati. Ef Kjartani Má er annt um að farið sé að lögum og varfærni sýnd, hvar var hann þá staddur þegar bæjarstjórn tók ákvörðun um að skuldbinda bæjarsjóð um níuhundruð og fimmtíu milljónir vegna fjölnota fótboltahúss þvert á lögfræðiálit þess efnis að sá samningur bryti í mjög líklega bága við ákvæði Evrópska efnahagssvæðisins um útboð. Sú ákvörðun getur e.t.v. bakað bæjarsjóði háar sektargreiðslur. Það mál sætir nú rannsókn hjá Eftirlitsstofnun EFTA.Það sem Kjartan Már vill vera láta ábyrga afstöðu bæjarfulltrúa, virðist mér vera “búmerang” út í loftið sem hittir hann sjálfan. Slíkt getur gerst, ekki væni ég hann um skinhelgi.Skúli Thoroddsen