Skuldlaus!
Reykjanesbær hefur á undanförnum árum átt í miklum fjárhagslegum erfiðleikum bæði vegna utanaðkomandi áhrifa, brottför hersins á sínum tíma sem og vegna of mikilla fjárfestinga hér í heimabyggð.
Á síðustu árum hafa fjárhagsáætlanir hjá meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar ekki staðist tímans tönn. Byggt hefur verið á umtalsverðum væntingum meirihlutans, rekstur verið neikvæður flest árin og stoppað í götin með sölu eigna.
Reyndar má segja í stuttu máli að rekstur Reykjanesbæjar hefur síðustu 10 árin verið neikvæður, tekjur hafa ekki dugað fyrir rekstrarútgjöldum, en vegna eignasölu á undanförnum árum hefur tekist að brúa bilið að mestu leyti.
Þrátt fyrir að tekjur hafi aukist verulega einkenndist síðasta 3ja ára áætlun meirihlutans á hallarekstri auk sölu eigna. Þetta hefur EFS (Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga) staðfest nýlega með bréfi til Reykjanesbæjar.
Seldar hafa verið eignir fyrir um á annan tug milljarða á síðustu árum og nú síðast hefur verið gengið frá sölu á „Magma skuldabréfinu“ sem gerir Reykjanesbæ kleyft að borga að einhverju leyti niður áfallnar skuldir og yfirdrætti hjá lánastofnunum og ríki.
Þrátt fyrir ofangreint er ljóst að Reykjanesbær er ekki skuldlaus eins og greina mátti af orðum bæjarstjóra Reykjanesbæjar á Ljósanótt. Óneitanlega kom það íbúum Reykjanesbæjar á óvart að bærinn væri orðinn skuldlaus svona allt í einu. Bæjarstjórinn þarf að gæta orða sinna og varast það að skapa væntingar sem svo oft áður hafa fallið í grýttan jarðveg.
Reykjanesbær skuldar ennþá því miður í kringum 20 milljarða.
Með virðingu fyrir öllum hlutaðeigandi þá er það ekki við hæfi að koma með pólitískt útspil á Ljósanótt, hátíð okkar heimamanna og allra síst viðeigandi að skapa væntingar sem ekki standast tímans tönn.
Friðjón Einarsson