Skuldir heimilanna
Í upphafi kosningabaráttunnar voru kynntar aðgerðir Vinstri grænna í skuldamálum heimilanna. Vinstri græn telja að ekki sé nóg að gert í þeim málum og vilja halda áfram að styrkja heimilin í landinu. Þessar áherslur hafa þó ekki fengið mikla athygli það sem af er kosningabaráttunni.
Flokkur sem beitir sér fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum þar sem almannahagsmunir eru teknir fram yfir alræði peninga og markaðshyggju hlýtur að leggjast gegn því óréttlæti sem býr í íslensku verðtryggingunni þar sem aðgerðir á peningamarkaði geta lagt líf heilu kynslóðanna í rúst. Í samfélagi sem reist er á grunni almannahagsmuna og réttlætis gengur ekki að fjármagnseigendur séu tryggðir fyrir áföllum í hagkerfinu en almennir borgarar beri einir áhættuna og kostnaðinn. Því þarf að endurskoða verðtrygginguna frá grunni og leita leiða til að afnema hana án þess þó að stefna ævisparnaði eldra fólks í hættu.
Vandinn er margslunginn og Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur mótað leiðir sem heldur áfram að mæta þeim hópum sem enn eru illa staddir á Íslandi.
a) Lánsveðshópurinn. Bráðlega verða kynntar lausnir fyrir þá skuldara sem eru með lánsveð á húsum sínum og hafa því fallið fyrir utan aðrar leiðréttingar. Lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki hafa staðið gegn þessari leiðréttingu í langan tíma og niðurstaðan verður sú að leiðréttingin verður kostuð af mestu leyti af ríkisjóði.
b) Þeir sem fjármögnuðu húsin með sparnaði. Á árunum 2005 - 2008 var þróun á íbúðarverði langt umfram launaþróun. Þar má tala um forsendubrest á húsnæðismarkaði. Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur lagt til leiðir til að færa niður höfuðstól lána hjá þessum hópi og reiknað er með að sú leiðrétting kosti 24 milljarða króna. Með þessari aðgerð er jafnræði tryggt um leið og leitast er við að ná sátt við þá sem hvað skuldsettastir eru.
c) Að tryggja heilbrigt fjármálakerfi. Til lengri tíma þarf að tryggja að íslenskir lántakendur búi ekki við það lánakerfi að ábyrgð á lélegri hagstjórn og veikri krónu fari ekki beint á herðar skuldara. Vinstri græn ætla að endurskoða fjármálakerfið á íslandi með það að markmiði að leiðrétta það óréttlæti sem í því felst.
Yfirvöld þurfa að fara að taka yfir stjórn peningamála í landinu. Peningakerfið eins og önnur kerfi þurfa að nýtast samfélaginu betur. Það var viðtekin skoðun fyrir hrun að það væri ekki hlutverk stjórnmálamanna að segja bankamönnum til verka. Þeir væru sérfræðingar á sínu sviði sem vissu hvernig best væri staðið að hlutunum. Hugmyndir sem endurspegla svo átakanlega vanmat á hlutverki stjórnmálamanna eiga að heyra sögunni til.
Inga Sigrún Atladóttir
skipar 2. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs í Suðurkjördæmi