Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

„Skrifaðu flugvöll!“
Oddný G. Harðardóttir
Fimmtudagur 13. nóvember 2014 kl. 08:52

„Skrifaðu flugvöll!“

Oddný G. Harðardóttir skrifar.

Í janúar 2014 skilaði Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, skýrslu til Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem ber yfirskriftina Innanlandflug um Keflavíkurflugvöll – möguleikar og samfélagsleg áhrif. Mér þykir rétt að rifja upp efni þessarar skýrslu nú þegar að þingmenn Framsóknar hafa lagt svo mikla áherslu á að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni að þeir vilja taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg. Þar á meðal eru tveir þingmenn Framsóknar sem búa á Suðurnesjum.

Staðsetning Reykjavíkurflugvallar hefur verið deilumál lengi. Nýlega var sett á laggirnar nefnd undir forystu Rögnu Árnadóttur til að fjalla um staðsetningu flugvallarins á höfuðborgarsvæðinu. Ábyrgðarmenn verkefnisins eru innanríkisráðherra, borgarstjóri og forstjóri Icelandair Group. Þar er rætt um þrjá staði fyrir utan Vatnsmýrina; Hólmsheiði, Álftanes og Hvassahraun. En ekki Keflavík. Þó hefur Keflavíkurflugvöllur verið einn þeirra kosta sem nefndir hafa verið hvað oftast sem framtíðarmiðstöð innanlandsflugs á Íslandi. Flugvöllur í miðri höfðuðborginni getur varla talist framtíðarlausn.

Keflavíkurflugvöllur er vel í stakk búinn til þess að taka við innanlandsflugi. Í skýrslu Heklunnar kemur fram að ekki þurfi að ráðast í miklar framkvæmdir verði að flutningnum til Keflavíkur, hvorki vegna flugbrauta né vegna húnæðis fyrir flugstöð. Nýta mætti húsnæði í eigu ríkisins í nágrenni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Keflavík er því mun hagstæðari kostur en Hólmsheiði, Álftanes eða Hvassahraun þar sem byggja þyrfti dýr mannvirki. Með tíðari rútuferðum um Reykjanesbraut og eflingu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem nauðsynleg er hvort sem er, get ég ekki séð neitt sem mælir gegn því að Keflavíkurflugvöllur taki við innlandsfluginu.

Isavia gerir ekki ráð fyrir fjölgun starfsfólks verði áætlunarflug innanlands flutt til Keflavíkur. Hins vegar gætu orðið til 150-200 ný störf á vegum tveggja stærstu flugrekstraraðilana í innanlandsflugi og enn fleiri ef spár um fækkun farþega við flutninginn ganga ekki eftir. Þá eru ótalin afleidd störf. Flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur væri því afar góður kostur fyrir okkur Suðurnesjamenn og hefði góð áhrif á samfélögin á Suðurnesjum sem þurfa sannarlega á styrk að halda, einkum nú um stundir.

„Skrifaðu flugvöll“, er frasi sem flestir kannast við og stundum nefnt sem dæmi um vinsældakaup og órausæi. Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur er hins vegar aðgerð sem byggist á hagsýni og góðri nýtingu mannvirkja sem fyrir eru á svæðinu.

Oddný G. Harðardóttir
þingmaður Samfylkingarinnar
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024