Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Skora á þingmenn að bjarga Reykjanesskaga
Laugardagur 25. febrúar 2012 kl. 01:38

Skora á þingmenn að bjarga Reykjanesskaga


Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands hafna því alfarið að nánast allt suðvesturhorn landsins verði gert að einu samfelldu orkuvinnslusvæði eins og gert er ráð fyrir í drögum að þingsályktun að Rammaáætlun. Samtökin skora á þingmenn Suðurkjördæmis, Suðvesturkjördæmis og Reykjavíkurkjördæmanna að koma í veg fyrir að mikilvægum útivistarsvæðum og náttúruperlum verði fórnað undir orkunýtingu sem muni t.d. stórskaða möguleika til uppbyggingar ferðaþjónustu á svæðinu.

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands hafa sent öllum þingmönnum kjördæmanna bréf þessa efnis.


Af þeim 19 virkjunarkostum á Reykjanesskaga, sem fjallað er um í drögunum, fara einungis þrír í verndarflokk. Fjögur svæði hafa þegar verið virkjuð, sjö önnur féllu í orkunýtingarflokk. Samtals fara því ellefu svæði undir orkunýtingu. Fimm svæði fara í biðflokk en gera má ráð fyrir að flest þeirra fari í orkunýtingu síðar. Í tillögunni er t.d. kveðið á um að Austurengjahver í Krýsuvík og Trölladyngja fari í orkunýtingu verði önnur svæði í Reykjanesfólkvangi virkjanleg. Á þessu má sjá að náttúruvernd á suðvesturlandi fer verulega halloka í Rammaáætlun, að óbreyttu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Reykjanesfólkvangi, einu vinsælasta útivistarsvæðinu á suðvesturhorni landsins, verður breytt í iðnaðarsvæði fari svæðið í orkunýtingu eins og gert er ráð fyrir í drögunum. Slíkt er algjörlega óásættanlegt nú á tímum þegar mikilvægi ósnortinna náttúrusvæða í grennd við þéttbýli hefur aldrei verið meira.


Sem fulltrúum náttúruverndarsamtaka er okkur tvennt efst í huga, annarsvegar náttúruvernd og hinsvegar heilsa og vellíðan landsmanna. Geyst hefur verið farið í virkjun jarðhitans á Hellisheiði með vandamálum sem ekki hefur verið unnt að leysa með viðunandi hætti. Brennisteinsvetnismengun er of mikil og svæðið leikur reglulega á reiðiskjálfi með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa Hveragerðis.


Hver og einn á að fá notið ósnortinnar og heilnæmar náttúru, auk þess sem dýra og jurtalíf skal njóta fullrar verndar. Á Suðvesturlandi býr yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, landshlutinn nær þó ekki 3% af heildarflatarmáli Íslands. Það er kunnara en frá þurfi að segja að ágengni af ýmsu tagi er mikil gagnvart náttúru á Suðvesturlandi og þykir mörgum, þar á meðal okkur, að mál sé að linni og snúið skuli til betri vegar.


Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands.

Göngufólk á ferð í Krýsuvík. Ljósm: elg