Skora á ISAVIA að fresta gjaldtöku hópferðabifreiða

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) vísa til boðaðrar gjaldstöku af hópferðarbifreiðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) sem mun að óbreyttu taka gildi í dag,  fimmtudaginn 1. mars. Þá vísa SAF einnig til fyrri samskipta við Isavia ohf. um mál þetta þar sem samtökin hafa komið á framfæri ábendingum aðildarfélaga hvað ofangreind gjöld varðar.

SAF vekja athygli á að í gær fór fram félagsfundur hópbílafyrirtækja, ferðaskrifstofufyrirtækja og fyrirtækja í afþreyingu innan samtakanna sem haldinn var  í Húsi atvinnulífsins. Á fundinum var til umræðu boðuð gjaldtaka og staða mála sér í lagi í ljósi þess að mál þetta er nú í formlegu ferli hjá Samkeppniseftirlitinu. Þar kom m.a. fram að í ljósi óvissu um lögmæti umræddra gjalda telji fyrirtæki sér ekki unnt að taka ákvörðun að svo stöddu um að skrá sig hjá Isavia ohf., og þar með samþykkja boðaða gjaldskrá, en ákvörðun um slíkt liggur alfarið hjá fyrirtækjum.

Með vísan til framanritaðs og að gefnu tilefni telja SAF mikilvægt að allri óvissu um lögmæti umræddra gjalda, þ.m.t. álitamálum um gagnsæi og forsendur gjaldanna, sé eytt áður en hún kemur til framkvæmda. Telja SAF því ábyrgt að Samkeppniseftirlitinu sé gefið færi á því að ljúka rannsókn sinni á málinu en nú þegar á sér m.a. stað gagnaöflun eftirlitsins þar sem leitað hefur verið eftir ítarlegum upplýsingum frá hagsmunaaðilum til viðbótar við upplýsingar frá Isavia ohf. Í ljósi óvissu um gjöldin og þeirra álitamála sem uppi eru þá skora samtökin á Isavia ohf. að fresta gildisstöku gjaldanna að lágmarki fram til þess tíma sem niðurstaða eftirlitsins liggur fyrir.

Fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.