Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sköpunarkraftur, ánægja og ástríða nemenda og kennara
Sunnudagur 21. maí 2017 kl. 06:00

Sköpunarkraftur, ánægja og ástríða nemenda og kennara

-Listahátíð barna í Reykjanesbæ

Listahátíð barna, sem haldin er hátíðleg í 12. sinn í Reykjanesbæ, er hin glæsilegasta að vanda. Í öll þessi ár hefur Listasafn Reykjanesbæjar, undir stjórn þeirra Guðlaugar Maríu Lewis, fræðslufulltrúa menningarmála, og Valgerðar Guðmundsdóttur, menningarfulltrúa, haldið utan um sýninguna og eiga þær heiður skilið fyrir góða og gefandi samvinnu.

Þemað að þessu sinni er „Dýrin mín stór og smá“. Nemendur og kennarar í leikskólum Reykjanesbæjar hafa unnið ötullega að sýningunni allt skólaárið og er undirriðuð snortin af sköpunarkrafti, ánægju og ástríðu nemenda og kennara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á sýningunni má greinilega sjá tengingu við þá sex grunnþættti menntunar sem hafðir eru að leiðarljósi í aðalnámskrá leikskóla, enda er verkefni sem þetta einstakt tækifæri til þess að vinna með sköpun, sjálfbærni, læsi, lýðræði og umhverfismennt svo eittthvað sé nefnt.

Til að gefa innsýn í þá vinnu sem liggur að baki sýningu sem þessari, þá hófst undirbúningur t.a.m. í leikskólanum Gimli á haustönn 2016. Markvisst var unnið að þemanu sem byrjaði með umræðum um dýrin og kosningu nemenda um hvaða dýr ætti að búa til. Krókódíll og úlfur báru sigur úr býtum í þeirri kosningu.

Í framhaldi kynntu nemendur sér dýrin nánar með því að skoða myndir og myndbönd. Einnig mældu þau raunverulega stærð á dýrunum, til þess að hægt væri að skapa þau í raunstærð. Nemendur unnu dýrin úr dagblöðum, bjuggu til fjöldan allan af kúlum, röðuðu og límdu þær saman til að mynda búkinn á dýrunum. Einnig voru dagblöð og veggfóðurslím notuð til að móta búkinn og að lokum var gifs borið á. Krókódíllinn fékk eggjabakka á bakið til að kalla fram hrjúfu áferðina á baki krókódílsins, síðan voru dýrin máluð. Búnar voru til mýs úr pappír og þeim sleppt lausum í listasalnum. 
Það var gefandi að sjá hvernig börnin blómstruðu í því skapandi starfi sem fylgdi undirbúningnum fyrir hátíðina og lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig styrkleikar ólíkra einstaklinga fengu notið sín í verkefninu.

Elsti árgangur leikskólans bar hitann og þungann af vinnunni, en að sjálfsögðu lögðu allir nemendur leikskólans hönd á plóg við sköpun listaverkanna. Allt sköpunarferlið var ævintýri líkast og unun að fylgjast með þegar dýrin tóku smátt og smátt á sig nýja og breytta mynd. Verkferlið einkenndist af gleði og ákafa þar sem fróðleikur og ný þekking bættist við allan veturinn. Þegar hátíðin var sett þann 4.maí mátti sjá ánægð og stolt börn ganga um sýningarsalinn í Duus Safnahúsum.

Utanaðkomandi aðilum ber saman um að Listahátíð barna í Reykjanesbæ beri af öðrum hátíðum og sé á meðal þess besta sem boðið er upp á í hátíðahaldi á landsvísu. Sýningin stendur til 21. maí og hvet ég alla sem tök hafa á að bera hana augum, því sjón er sögu ríkari.

Karen Valdimarsdóttir,
leikskólastýra á leikskólanum Gimli