Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sköpum enn betra samfélag á Reykjanesi
Fimmtudagur 24. maí 2012 kl. 15:51

Sköpum enn betra samfélag á Reykjanesi

Það heyrir til algerra undantekninga ef sveitarfélög á Íslandi standa ekki frammi fyrir erfiðum rekstri. Rekstrartekjur eru takmarkaðar, auknar þjónustukröfur hækka útgjöldin og kostnaður við fjármögnun er hár. Af tíu stærstu sveitarfélögum á landinu voru t.d. aðeins Vestmannaeyjar, Garðabær, Seltjarnarnes og Reykjanesbær sem skiluðu jákvæðri rekstrarniðurstöðu úr bæjarsjóðum sínum í fyrra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarsjóðirnir greiða fyrir leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, félagslega þjónustu, málefni fatlaðra, marga þætti í öldrunarþjónustu, gatnagerð og viðhald, íþróttir, menningu o.s.frv.

Krafa á öll sveitarfélög, hin minnstu sem hin stærstu, er að halda uppi góðri þjónustu á öllum þessum sviðum.

Sum sveitarfélög búa við þær aðstæður að hafa innan sinna vébanda flugvelli, hafnir, orkurík svæði og atvinnusvæði, sem eru uppspretta aukinnar tekjuöflunar. En fyrir mörg þeirra eru einmitt slík mannvirki mikil byrði, sbr. fiskihafnir um allt land sem standa ekki undir viðhaldi. Tekjustofnar flestra sveitarfélaga leyfa engin umfram útgjöld, enda ekki skilgreint hlutverk þeirra að leggja stoðir undir atvinnureksturinn með fjármagni til hafnargerðar, flugvalla, orkuvinnslu eða stórra atvinnusvæða, nema til komi lánsfé eða styrkir. Því er mjög erfitt fyrir smæstu sveitarfélögin að ná að byggja þær stoðir sem þarf. Með sameinuðu átaki stærri aðila tekst það.

Ein leið til að styrkja stoðirnar, bæta þjónustu, minnka tilkostnað á hvern íbúa og ná saman um spennandi atvinnusvæði er að sameina sveitarfélög þar sem það á við. Ef sveitarfélögin eru nánast hlið við hlið, deila með sér atvinnusvæðum og samgangur íbúa er slíkur að þeir gera allir sömu kröfur til þjónustu, ætti að vera auðvelt að segja að slík sveitarfélög hljóti að sameina stjórnkerfi sitt.

Meiri samstaða, betri þjónusta, aukin hagkvæmni.

Við það verður til sameiginlegur stuðningur við fjölbreytt atvinnulíf, skipuleg uppbygging atvinnusvæða þar sem það er skynsamlegast fyrir atvinnureksturinn sjálfan, sameiginleg uppbyggingarstefna í leik- og grunnskóla og lækkun stjórnsýslukostnaðar. Með því fengjust bæði hagræðing og aukin gæði í þjónustueiningum.

Reykjanesbær varð til við sameiningu stjórnsýslu Njarðvíkur, Keflavíkur og Hafna árið 1994. Nú er tímabært að taka skrefið lengra. Sameining á stjórnsýslu sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðis og Reykjanesbæjar hlýtur nú að teljast mjög skynsamleg.

Aðeins 10 mínútna akstur er á milli „ráðhúsa“ sveitarfélaganna. Í Garði búa 1500 manns, í Sandgerði 1700 og í Reykjanesbæ 14200 manns. Úr verður rúmlega 17 þúsund manna samfélag, umhverfis alþjóðaflugvöllinn.

Árið 1994 tóku íbúar í Keflavík, Njarðvík og Höfnum það skref að sameina sveitarfélögin undir eina stjórnsýslu, sem fékk nafnið Reykjanesbær. Stjórnsýsla og þjónusta var sameinuð, skólakerfið samhæft og sett þar sömu þjónustu- og gæðaviðmið, samræmdar voru strætisvagnasamgöngur, gæði í ytra og innra starfi leik- og grunnskóla, menningarstarf, íþróttastarf, félagsþjónusta o.s.frv. Unnt var að sameina atvinnusvæði og stuðla að nýjum íbúahverfum, gera allt skipulag hagkvæmara.

Af hverju er mikilvægt að ræða þetta nú?

Eins og í upphafi var sagt standa nánast öll sveitarfélög fyrir erfiðum rekstrarákvörðunum. Sandgerði glímir við erfiðan rekstrar- og skuldavanda, Garðurinn við erfiðan rekstrarvanda, en hefur sterka eiginfjárstöðu. Mikið návígi stjórnsýslunnar og grunnskólans í litlu samfélagi hefur sett þar strik í reikninginn. Reykjanesbær er skuldsettur vegna atvinnuuppbyggingar sem enn hefur ekki skilað miklum tekjum en á umtalsverðar eignir sem þarf að losa um til að lækka skuldir. Öll þurfa þessi sveitarfélög að taka ákvarðanir um tilhögun á framhaldinu.

Ágætu íbúar í Sandgerði, Garði og Reykjanesbæ. Nú er mikilvægt að þið látið í ykkur heyra, hvort þið viljið ganga til þessa verks að sameina stjórnsýslu sveitarfélaganna, ekki bara þá kjarna sem nú eru undir stjórnsýslu Reykjanesbæjar (Keflavík, Njarðvík, Ásbrú, Innri Njarðvík og Hafnir).


Ef niðurstaða ykkar er jákvæð, munum við móta sameiginlega stefnu og framkvæma hana á mun auðveldari hátt en nú er. Ef ekki, ber hverju sveitarfélagi fyrir sig skylda til að taka mið af því og móta eigin stefnu út frá velferð sinna íbúa, ungra sem aldinna, og skapa þeim þjónustu við hæfi. Mörg álitamál bíða eftir þessari niðurstöðu, hvort sem er í atvinnumálum, skólamálum, málefnum fatlaðra, félagslegri þjónustu eða þjónustu við eldri borgara. Því er brýnt að ræða þessi mál og fá niðurstöðu sem fyrst.


Með sumarkveðju,
Árni Sigfússon, bæjarstjóri