Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 4. mars 2003 kl. 20:36

Skólinn skiptir máli!

Hugleiðing út frá niðurstöðum könnunarprófa

Niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 4. og 7. bekk voru birtar nú á dögunum. Í heildina litið er árangur skóla á Suðurnesjum slakur samanborið við landið í heild. Einkum er það árangur í íslensku sem veldur vonbrigðum. Einn ágætur borgari hér í bæ spyr á heimasíðu Reykjanesbæjar: Erum við meiri tossar en aðrir?
Af hverju erum við lélegri í íslensku en aðrir landsmenn? Það er eðlilegt að svo sé spurt. Það er alvarlegt mál að slakur árangur á samræmdum prófum skuli vera viðvarandi ástand frekar en undantekning. Námsárangur skiptir alla máli og okkur er brýn nauðsyn að tryggja að börnin okkar nái eins góðum árangri í námi og nokkur kostur er á. Góður árangur í grunnskóla er lykill að frekara námi og góð menntun opnar leiðir til allra átta. Menntun eykur skilning okkar á umhverfinu og heiminum og eykur sömuleiðis líkur á betri lífsafkomu í framtíðinni. Hér er því ekki um léttvægt dægurmál að ræða. Þegar litið er á niðurstöður einstakra skóla á könnunarprófum 4. og 7. bekkjar í október 2002, má víða sjá merki um góðan og jafnvel prýðilegan árangur. Þannig er árangur 4. bekkjar í Myllubakkaskóla mjög góður og 4. bekkur í Njarðvíkurskóla gefur lítið eftir þeim bestu á landinu. Í Gerðaskóla er 7. bekkurinn greinilega að gera góða hluti. Þá er rétt að spurt sé: Hvers vegna þessir bekkir? Hvernig má skýra góðan árangur þeirra? Hvaða ályktanir og lærdóm má draga af þeim sem standa sig best? Við erum ekki ein um að velta þessum og öðrum álíka spurningum fyrir okkur. Það hafa kennarar og kennslufræðinga gert í áratugi og flestir hafa komist að svipaðri niðurstöðu.

Góðan námsárangur má skýra með samspili nokkurra þátta. Eðlisgreind nemenda skiptir vissulega máli, en það kemur fleira til. Rannsóknir á “skilvirkum” skólum sýna að það eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á námsárangur í skólastarfi.

Gott skipulag skólastarfsins, skýr stefnumótun og stjórnun skólans er mikilvæg forsenda. Skóli þar sem góður agi ríkir, sanngjörnum og skýrum reglum er fylgt af öllu starfsfólki og nemendum og setur skýrar kröfur eru fram, allt eru þetta þættir sem einkenna góða skóla. Þáttur kennarans er þó e.t.v. stærsti einstaki þátturinn. Metnaður kennarans fyrir hönd barnanna, alúð hans við hvern og einn og brennandi áhugi hans á starfinu er ómetanlegir þættir. Kennari sem gefur skýr skilaboð um vandaða vinnu og verkefnaskil bæði til nemenda og foreldra, sem skipuleggur kennsluáætlanir vel og nýtir vel þann tíma sem hann hefur til að koma efninu til skila. Sá kennari er líklegur til að ná árangri, jafnvel þótt aðrir þættir séu í ólagi.

Þá má ekki gleyma þætti foreldranna. Því hefur verið haldið fram að þáttur foreldra sé jafn á við þátt skólans þegar kemur að námsárangri. Víst er að metnaður þeirra og áhugi á námi og starfi barna sinna er gríðarlega mikilvægur. Rannsóknir hafa sýnt að beint samhengi er á milli námsárangurs barna og menntunarstigs foreldra þ.e. börn langskólagenginna og sérfræðimenntaðra foreldra standa sig að jafnaði betur en hin. Sérfræðingar í þessu samhengi geta verið: læknar, lögfræðingar kennarar og prestar, rafvirkjar, smiðir og pípulagningamenn. Hér er verið að tala um heimili sem námshvetjandi umhverfi. Heimili sem gefur bein eða óbein skilaboð um mikilvægi menntunar, jafnvel þótt það sé aldrei fært sérstaklega í tal. Börnin sjá pabba eða mömmu “læra” hvort sem verið er að lesa fagtímarit um skurðlækningar heima hjá sér eða kynna sér nýungar í byggingariðnaði, reikna út efnismagn og gera tilboð í fyrirhugaða byggingaframkvæmd. Skilaboðin eru skýr: Það þurfa allir að læra. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að foreldrar með langskólanám að baki hafi að jafnaði meiri væntingar til barna sinna og sýni námi þeirra meiri áhuga. Það má eflaust til sanns vegar færa en er þó engan veginn einhlýtt. Víst er að margur hefur brotist til mennta þrátt fyrir litla formlega menntun foreldra og jafnvel bágan fjárhag, en það gerðist oftast vegna mikils áhuga foreldranna sem ekki komust til mennta sjálfir.

Skólinn skiptir máli. En áhugi, stuðningur og metnaður foreldra fyrir hönd barna sinna skiptir að minnsta kosti jafnmiklu máli.

Febrúar 2003
Eiríkur Hermannsson fræðslustjóri
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024