Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Skólasamfélagið á Suðurnesjum
  • Skólasamfélagið á Suðurnesjum
Laugardagur 29. mars 2014 kl. 13:40

Skólasamfélagið á Suðurnesjum

– Anna Lóa Ólafsdóttir, í framboði hjá Beinni leið, skrifar

Þegar talað er um að auka lífsgæði íbúa er menntun þar mikilvægur þáttur. Íbúar Suðurnesja búa í dag við aukin tækifæri þegar menntun er annars vegar og flest allir meðvitaðir um mikilvægi þess fyrir samfélagið. Hér hefur skólasamfélagið verið að vaxa og dafna og gaman að fylgjast með því öfluga starfi sem hér á sér stað.

Sem náms- og starfsráðgjafi hef ég verið ráðgefandi til fjölda fólks sem hætti í námi eftir grunnskóla eða byrjaði í framhaldsskóla og hætti. Í þessum hópi eru ungmenni sem koma oftar en ekki með lélegt sjálfstraust út í lífið og vita ekki hvað þau langar til að gera og hvert skuli stefna í framtíðinni. Af hverju eiga þessir einstaklingar svona erfitt með að taka ákvarðanir um nám og  störf og hvað getum við gert til að bregðast við þessu?

Við búum svo vel að þegar hefur verið hannað nám fyrir fullorðna sem mætir þörfum þessa einstaklinga í dag - hvort sem þeir vilja bæta upp grunnskólaárin eða klára framhaldsskólann. Við þurfum samt sem áður að huga að því hvernig við getum komið í veg fyrir að við séum að útskrifa nemendur úr grunnskóla sem standa frammi fyrir því að vita ekkert hvaða leiðir komi til með að henta þeim miðað við styrkleika og áhugasvið. Það er  mikilvægt að búa þannig um hnútana að þegar börnin okkar klára grunnskólann séu þau með gott sjálfstraust, þekki eigin styrkleika og áhugasvið sem auðveldar þeim að velja framhaldsnám við hæfi.

Í ljósi þess er ákjósanlegt að í öllum skólum svæðisins séu menntaðir náms- og starfsráðgjafar þar sem náms- og starfsfræðsla er hluti af skólastarfinu frá byrjun. Vænlegast til árangurs er heildræn náms- og starfsfræðsla í skólunum sem tekur mið af þroska nemenda en rannsóknir hafa sýnt að undirbúningur undir lífsstörfin byggir á ferli sem hefst snemma. Mikilvægt er að börn kanni umhverfi sitt út frá eigin áhuga og fái að reyna sig og upplifa árangur. Áherslan ætti að vera á að mæta börnum þar sem þau eru stödd en ætla þeim ekki að fylgja fyrirfram ákveðnum leiðum inn í framtíðina. Við hljótum flest að vera sammála því að við ættum að hjálpa börnunum okkar að vaxa inn í það að vera meira þau sjálf með aldrinum í stað þess að þau verði eitthvað sem aðrir vilja.

Heildrænt námsmat er einnig mikilvægur þáttur og að tekið sé tillit til bæði líðan og getu nemendanna. Mikilvægt er að skoða með hvaða hætti er verið að verðlauna einstaklinga þegar kemur að námsárárangri og hvernig megi auka á vellíðan heildarinnar án þess að draga úr gæðum skólastarfsins. Hvatning til náms ætti að miða að styrkleikum og áhugasviði nemenda og kjörorðin meiri samvinna, minni samkeppni mættu heyrast oftar.

Ég er þeirrar skoðunar að  ákjósanlegast væri að úr skólum útskrifist einstaklingar sem þekkja sjálfan sig ekki síður en það námsefni sem þeim hefur verið gert að nema. Í skólanum á að eiga sér stað sá undirbúningur sem einstaklingar þurfa til að geta tekið mikilvægar ákvarðanir um framtíðina - ákvarðanir sem geta varðað lífsgæði þeirra að stórum hluta. Við erum að vinna að mörgum af þessum þáttum í dag en getum alltaf gert betur og vænlegast ef stefnumótun fræðslumála er unnin í góðu samráði við foreldra og allan þann fjölda fagfólks sem vinnur með börnunum okkar á hverjum degi.
Ég mun leggja mitt af mörkum til að bæta skólastarf á Suðurnesjum enn frekar - og tel að þar muni menntun mín og reynsla koma að góðum notum fyrir utan óbilandi áhuga á málaflokknum.

Anna Lóa Ólafsdóttir
Í framboði hjá Beinni leið - fyrir fólkið í bænum!
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024