Aðsent

Skólamálin í forgang
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 15:41

Skólamálin í forgang

Kosningabaráttan er nú í hámæli og styttist óðum í kjördag, sem er n.k. laugardag, 26 maí. Í kosningabaráttunni hef ég hitt fyrir fjölmarga bæjarbúa og hefur það verið einkar ánægjulegt. Margir eru áhugasamir um framboð Miðflokksins og höfum við fengið ákaflega góðar viðtökur, fyrir það erum við þakklát. Skólamálin eru málaflokkur sem margir viðmælendur okkar hafa komið inn á. Við leggjum áherslu á að fjölga plássum í leik- og grunnskóla, enda nauðsynlegt vegna fordæmalausrar fólksfjölgunar. Einnig er forgangsmál að huga að kennurunum okkar en þeir eru undir miklu álagi.


Kennarar koma börnunum til manns

Public deli
Public deli

Ljósmæður koma börnunum í heiminn en kennarar börnunum til manns. Hvað er okkur mikilvægara í lífinu en börnin okkar og menntun þeirra. Margar áskoranir bíða okkar í skólamálum. Ekki er nóg að fjölga bara plássum í skólunum. Það þarf að huga að þeim dýrmæta mannauði sem býr innan veggja skólanna, kennurunum. Því miður er það svo að allt of lítil nýliðun er í kennarastéttinni og starfsmannaveltan er of mikil. Við þessu verður að bregðast. Fyrir efnahagshrunið fjölgaði verkefnum innan grunnskólanna og dvöl barna á leikskólum lengdist. Eftir hrunið fóru þessi verkefni hvergi og hafa þau enn aukist. Álag á kennara er því mikið. Við erum að sjá fram á kennararskort og til að bregðast við því verða launin að vera samkeppnisfær. Svigrúmið til að bæta kjör kennarar og auka nýliðun í stéttinni verður að vera til staðar. Mjög mikilvægt er að endurskoða og breikka tekjustofna sveitarfélaga  svo halda megi uppi eðlilegu skólastarfi. Sveitarfélögin verða að nýta sinn sameiginlega vettvang til þess að þrýsta á ríkisvaldið til að bæta tekjustofna sveitarfélaganna. Þetta er forgangsmál. Ef við ætlum að útskrifa sterka einstaklinga þurfum við að hlúa strax að þeim í leikskóla. Nauðsynlegt er að fækka börnum á hvern starfsmann í leikskóla.


Lengi býr að fyrstu gerð

Miðflokkurinn vill efla iðn-tækni og listgreinakennslu á grunnskólastigi. Í grunnskóla kemur oft í ljós hvaða nemendur hafa sérstaka hæfileika í handverki. Við viljum hlúa enn betur að þessum nemendum. Menntamálaráðuneytið hefur m.a. lagt áherslu á að fjölga þurfi nemendum í iðn- og tæknigreinum í framhaldskóla, vegna skorts á iðn- og tæknimenntuðu fólki á atvinnumarkaði.


Íslenskukennsla aldrei mikilvægari

Miðflokkurinn leggur áherslu á að íslenskukennslu verði gert hærra undir höfði í grunnskólunum.  Kennarasamband Íslands hefur bent á að hættumerki séu víða í grunnskólunum þegar kemur að stöðu íslenskrar tungu. Þetta hefur einnig komið fram í viðræðum mínum við kennara. Les- og málskilningi barna hefur hrakað og við höfum horft upp á innrás enskrar tungu, ef svo má að orði komast. Íslenskukennsluna þarf að styrkja á mörgum sviðum og þar viljum við eiga gott samstarf við kennarana og menntamálaráðuneytið. Styrkja þarf skólabókasöfnin, hvetja til meiri lesturs og fá höfunda til að koma í skólana til að lesa úr verkum sínum.


Ábyrgðin er okkar allra.

X-M

Margrét Þórarinsdóttir
oddviti Miðflokksins.