Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Skólaforeldrar segja allt gott
Þriðjudagur 9. nóvember 2010 kl. 08:39

Skólaforeldrar segja allt gott


Foreldrafélögin í Reykjanesbæ eru í góðum gír. Á þessu starfsári höfum við í FFGÍR gefið öllum börnum í 1.bekk endurskinsvesti til að nota í skammdeginu. Við héldum málfund um námsárangur barna og hlutverk foreldra og fengum til okkar góða gesti. Á málfundinn mættu 120 manns, bæði fagfólk og foreldrar. Á málfundinum kom greinilega í ljós að foreldrar og fagmenn eru mjög meðvitaðir um stöðu og hlutverk foreldra í námi barna sinna. Þegar fólk fær tækifæri til að setjast niður og tala saman þá kemur í ljós að við höfum öll eitthvað til málanna að leggja.


Niðurstaða fundarins um það sem foreldrar geta gert til að bæta námsárangur barna sinna:
1. Sýndu námi barnsins áhuga með því að taka virkan þátt í heimanáminu. Hvert foreldri og barn finna þann farveg  sem hentar barninu.
2. Hafðu aðhald og metnað fyrir hönd barnsins.
3. Þú skalt hrósa barninu og reyna að auka áhuga barnsins á náminu.
4. Hafðu reglur og skipulag í daglegu lífi barnsins og hjálpaðu barninu að byggja upp sjálfsaga.
5. Vertu jákvæður gagnvart náminu. Sýndu námsefninu áhuga og spurðu daglega hvað var  gert  í skólanum.
6. Vertu til staðar og vertu góð og jákvæð fyrirmynd.
7. Sýndu aðhald í lestri og lestu daglega með barninu þínu.
8. Talaðu á jákvæðan hátt um skólastarfið og kennarann.  Lestu og kynntu þér málefni þjóðfélags og samfélags.
9. Vertu ávallt í góðu samstarfi við kennara af eigin frumkvæði og fáðu að heimsækja bekkinn.
10. Þú skalt ræða beint við kennarann ef nemandinn kvartar undan einhverju, nauðsynlegt að heyra hans sjónarmið áður en þú tekur afstöðu.
11. Hafðu gott samstarf milli foreldra vina barnsins þíns. Foreldrar eiga að vera samstíga.
12. Sýndu fögum virðingu og varastu að biðja um leyfi í íþróttum og sundi nema af nauðsyn.
13. Reyndu að gera námið áhugavert, sýndu eftirfylgni og fáðu barnið til að  gera alltaf eins vel og það getur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Næst á dagskrá hjá okkur er að hittast í fyrirlestrasali í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hlusta á Nönnu Kristínu Christiansen höfund bókarinnar Skóli og skólaforeldrar. Nanna Kristín verður með erindi um hvernig skólaforeldrar geta lagt sitt af mörkum til að stuðla að vellíðan barnanna í skólanum.
Erindið verður flutt í FS, mánudaginn 15.nóvember kl.17:30-18:30.

Ingigerður Sæmundsdóttir,
verkefnastjóri FFGÍR