Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Skólafærninámskeið fyrir foreldra
Föstudagur 20. apríl 2007 kl. 18:35

Skólafærninámskeið fyrir foreldra

Þegar börn hefja grunnskólagöngu venjulega við 6 ára aldur hefst áralangt samstarf milli foreldra þeirra og þess skóla sem barnið gengur í.  Með svokölluðum skólafærninámskeiðum gefst skólum tækifæri til að bjóða foreldra velkomna og leggja þannig grunn að 10 ára góðri samvinnu byggðri á gagnkvæmu trausti, þekkingu og skilningi á hlutverki allra þátttakenda skólasamfélagsins.
Við upphaf skólagöngunnar hafa margir foreldrar áhyggjur af því hvernig til muni takast um menntun barna sinna. Hvort þau hafi valið rétta skólann eða rétta hverfið og hvort skólinn muni uppfylla væntingar barnsins og fjölskyldunnar.  Margir hafa áhyggjur af vandamálum sem virðast fara vaxandi hjá ungum nemendum við upphaf skólagöngu, þá sérstaklega hegðunar-, náms- og félagslegum vandamálum. Talið er að þessi vandamál sé hægt að leysa með góðri samvinnu foreldra og starfsfólks skóla. Ein þeirra leiða sem hefur verið farin til að byggja upp slíka samvinnu eru skólafærninámskeið. Meginhlutverk þeirra er að fá foreldra til að koma á vinnustað barna sinna og kynnast því fólki sem þar starfar, skoða húsakynni, bóka og tækjakost og síðast en ekki síst til að kynnast foreldrum skólasystkina barna sinna.

Helstu markmið skólafærninámskeiðs er:
•  að skapa vettvang fyrir foreldra til að kynnast starfsfólki skólans og að kynnast innbyrðis
•  að kynna foreldrum þær væntingar sem starfsfólk skólans hefur til þeirra og hvaða hlutverk foreldrum er ætlað af hálfu skólans
•  að gera foreldra meðvitaða um hag og þörf barna fyrir samvinnu heimila og skóla og þörf þeirra fyrir áhuga foreldra á skólastarfinu
•  vekja vitund foreldra á þeirri ábyrgð sem þeir bera á eftirliti með framkvæmd skólanámskrár
•  að gera foreldra meðvitaða um þau áhrif sem foreldrar geta haft á skólastarfið með starfsemi í foreldraráði, foreldrafélagi og sem bekkjarfulltrúar
•  að kynna starfsfólki skólans væntingar foreldra og þær kröfur sem foreldrar gera til þess
•  að ná til allra foreldra, líka þeirra sem telja sig ekki þurfa að mæta af því að þeirra barn á ekki við neinn vanda að stríða!

Á dagskrá námskeiðsins, sem oft fer fram á þremur fundum eða 12 klst alls,  er  sameiginlegt borðhald þar sem foreldrum gefst tækifæri til að kynnast og spjalla saman, kynningar, fyrirlestrar, leikir o.fl. Í lok hvers námskeiðs er lagður spurningalisti fyrir þátttakendur þar sem þeir eru beðnir að segja álit sitt á innihaldi og framkvæmd námskeiðsins. Þannig er hægt að þróa skólafærninámskeiðið í hverjum skóla með aðstoða þátttakenda.   Útfærslan á þessum námskeiðum fyrir foreldra er mismunandi milli skóla en foreldrar hafa fagnað mjög skólafærni-námskeiðum þar sem þau hafa verið haldin. Námskeiðin leggja drög að mikilvægum þáttum í samstarfi heimila og skóla eins og  þeirri nauðsynlegu upplýsingamiðlun sem sífellt þarf að vera í gangi milli foreldra og starfsfólks skóla. Nú á vordögum eru margir skólar að skipuleggja skólastarfið á næsta skólaári og þeir foreldrar sem eiga börn sem eiga að byrja í skóla í haust eru að velta fyrir sér upphafi skóla næsta skólaárs,  skóladagatölum og skólanámskrám.  Landssamtök foreldra hvetja skólayfirvöld til að beita sér fyrir að koma á skólafærninámskeiðum í öllum skólum til hagsbóta fyrir alla aðila.

 

Helga Margrét Guðmundsdóttir

verkefnastjóri hjá  Heimili og skóla - landssamtökum foreldra


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024