Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Skóflustungublekkingar og
Sunnudagur 17. febrúar 2008 kl. 14:27

Skóflustungublekkingar og "hálfver" í Helguvík

Hvað ætli bæjarstjórinn í Reykjanesbæ sé oft búinn að tilkynna um fyrstu skóflustunguna að Helguvíkurálveri? Líklega hefur hann oftar boðað komu álversins en Gunnar í Krossinum hefur boðað að syndaflóð væri í nánd.
Þetta er sýndarmennska. Þegar bæjarstjórinn segir að búið sé að tryggja orku til fyrsta áfanga álvers í Helguvík fer hann einfaldlega með rangt mál. Rétt eins og með aðra sjálfstæðismenn þessa dagana er erfitt að gera upp við sig hvort það er með vilja gert eða hvort hann hefur bara "lent í þessu".


Staðreyndin er sú að fyrir utan þau 100 MW sem OR lofaði á sínum tíma getur Hitaveita Suðurnesja ekki ábyrgst nema afar lítinn hluta af því sem þarf til þess að byggja "hálfver" í Helguvík - hvað þá álver í fullri stærð. Þótt næg orka væri til að byggja "hálfver" væri fullkomið ábyrgðarleysi að fara af stað án þess að hafa tryggt orku til alls þess sem stefnt er að.
Ekki mun Landsvirkjun koma til bjargar og þá er eina von bæjarstjórans að OR virki Hengilinn allan og selji nánast hvert einasta megawatt til álbræðslu í Helguvík. Ég held að það sé tímabært að blaðamenn spyrji Ólaf F Magnússon hvað honum finnst um það.


Hitaveita Suðurnesja á von um orku á Krýsuvíkursvæðinu en tilraunaborholur hafa valdið vonbrigðum. Til að auka enn á angur bæjarstjórans í Reykjanesbæ hafa sveitarfélögin Vogar, Grindavík og Hafnarfjörður sem eiga auðlindirnar stofnað um þær félag, Suðurlindir, og vilja að orkan sem þar fæst verði nýtt innan sveitarfélaganna. Ef orkan er þá yfir höfuð virkjanleg og leyfi fæst til að virkja hana sem er langt því frá gefið.


Þó svo færi að OR eða Suðurlindir sæju Helguvík fyrir orku þá væri enn eftir að leggja rafmagnið út í Helguvík, a.m.k. að Fitjum. Enn hefur ekki nokkur maður bent á það línustæði um Reykjanesskagann sem líklegt er að sátt náist um og ekkert bendir til að slík leið finnist. Reykjanesskaginn er gríðarlega merkilegt og fagurt útivistarsvæði sem ferðaþjónustuaðilar, umhverfisverndar- og útivistarfólk mun ekki láta eyðileggja baráttulaust.
Nú er beðið eftir úrskurði um það hvort meta skuli alla þætti fyrirhugaðra framkvæmda í Helguvík saman, þ.e. línulagnir, orkuöflun, byggingu og rekstur álvers. Öllum er ljóst að það er hið eina rétta. Standist framkvæmdin ekki slíkt mat á hún einfaldlega ekki rétt á sér.


Hin síendurtekna boðun Helguvíkurálvers gegn betri vitund predikaranna er hvimleitt og siðlaust áróðursbragð sem tími er kominn til að hætta. Menn ættu að sníða sér ráðherrakápu úr betra klæði.


Dofri Hermannsson
 (Höfundur er 1. varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar)

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024