Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Skítadreifari yfir blæðandi heimavöll ráðherra
Miðvikudagur 16. maí 2012 kl. 10:16

Skítadreifari yfir blæðandi heimavöll ráðherra

Þeir dreifa drullunni sem eiga hana var það sem okkur datt í hug eftir lestur leiðara auglýsingablaðsins Víkurfrétta síðastliðinn fimmtudag 10. maí. Þar fer ritstjóri blaðsins á kostum og skilur ekkert í að fjármálaráðherra Oddný Harðardóttir, úr Garðinum, hafi ekki rétt hlut Suðurnesjamanna á þeim fjórum mánuðum sem hún hefur setið sem ráðherra. Mikill væri máttur þeirrar manneskju, sem leiðrétt gæti margra ára óráðsíu og skuldasöfnun Reykjanesbæjar. Bærinn er nánast eignalaus og eitt skuldsettasta bæjarfélag landsins.

Hann er orðinn þreytandi málflutningur ákveðinna aðila á Suðurnesjum að allt sem mistakist í uppbyggingu svæðisins sé ríkisstjórninni að kenna. Menn hreykja sér hátt en þegar illa undirbúin verkefnin falla um sjálf sig benda þeir á ríkisstjórnina og segja hana vilja veg Suðurnesjamanna sem minnstan. Þar opinbera þeir algert getuleysi sitt til að takast á við eigin vandamál. Oddný Harðardóttir hefur beitt sér fyrir málum svæðisins alla þá fjóra mánuði sem hún hefur setið í ráðherraembætti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Suðurnesin hér og nú

Það er létt verk og löðurmannlegt að sitja í fílabeinsturni og benda hingað og þangað, líta aldrei í eiginn barm og kenna öðrum um hvernig komið er. Það er aðferð sumra sveitarstjórnamanna á Suðurnesjum og það er aðferðin sem er notuð í áðurnefndum leiðara Víkurfrétta. Ritstjóri blaðsins og leiðarahöfundur hefur ekki fyrir því að að afla sér upplýsinga eða færa rök fyrir fullyrðingum sínum, heldur níðir skóinn af ráðherra með innihaldslausum sleggjudómum. Hann talar um vanskil, vandræði, og mikið atvinnuleysi, eins og það hafi ekki verið til staðar fyrr en núverandi ríkisstjórn tók við stjórnvölunum. Við viljum nota tækifærið og minna ritstjórann á að vandræði Suðurnesjamanna og þá sérstaklega íbúa Reykjanesbæjar hófust fyrir löngu. Það er kominn tími til að hætta allri meðvirkni með meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og fara að horfast í augu við stöðuna eins og hún er og viðurkenna hverjum er um að kenna. Það er ekki Jóhönnu Sigurðardóttur, ríkisstjórn hennar eða Oddnýju Harðardóttur að kenna að meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar er búinn að selja flestar eignir bæjarins og situr í skuldasúpu sem er að drekkja bæjarfélaginu. Gagnrýnin og hlutlaus blaðamennska sem skoðar meira en bara eina hlið mála, hefði leitt þetta í ljós.


Oddnýjar þáttur Harðardóttur

Leiðarinn vegur þungt að Oddnýju Harðardóttur fjármála- og iðnaðarráðherra og nánast er látið að því liggja að hún sé ekki að vinna vinnuna sína. Krafan um gamaldags hreppapólitík þar sem ráðherra hygli sínum sveitungum umfram aðra landsmenn er mikil.

Oddný hefur sem þingmaður, formaður fjárlaganefndar, formaður þingsflokks Samfylkingarinnar og nú sem fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra verið ötull talsmaður Suðurnesjamanna um leið og hún sinnir verkefnum alls landsins. Oddný hefur barist fyrir að tryggja áframhaldandi rekstur Keilis, stóð að stofnun Velferðavaktarinnar og Menntavagnsins. Allt eru þetta verkefni sem snerta fólk á Suðurnesjum. Hún kom líka að stofnun Heklunnar sem er atvinnuþróunar- og nýsköpunarfélag og kemur einnig öllum íbúum á svæðinu til góða. Þar fyrir utan hefur hún beitt sér fyrir fjárfestingasamningum um orkunýtingu á Suðurnesjum, álverinu í Helguvík, kísilverksmiðju í Helguvík auk gagnavers Verne á Ásbrú. Þessi verkefni stranda ekki á Oddnýju Harðardóttur, það er því óskiljanlegt að ritstjóri Víkurfrétta sjái sig knúinn til að segja að hún láti ekki til sín taka. Verkin tala sínu máli.


Ábyrgð fjölmiðla

Leiðarinn í auglýsingablaðinu ber öll þess merki að þarna ritar málpípa sjálfstæðismanna sem er með það eitt að leiðarljósi að koma höggi á Oddnýju Harðardóttur fjármála- og iðnaðarráðherra. Höfum það á hreinu að Oddný Harðardóttir vinnur að málefnum Suðurnesjamanna alla daga og af elju í stöðugu argaþrasi og málþófi stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Allar fullyrðingar um annað eru rakalausar.

Við viljum nota þetta tækifæri og senda rætnina úr leiðara ritstjórans aftur til föðurhúsanna og um leið biðja hann að vanda til við skrifin en ausa ekki úr skítadreifara yfir blæðandi heimavöll ráðaherra, svo hans eigin orð séu notuð. Slíkt er bæði ósmekklegt og ómaklegt og hæfir ekki fjölmiðli sem vill láta taka sig alvarlega.
Það var þó eitt sem var eftirtektarvert í leiðaranum margumrædda, það er sú staðreynd að það eru kosningar til Alþingis eftir ár. Kannski var ritstjórinn fyrir hönd stjórnarandstöðunnar að hefja kosningabaráttuna, en í henni mun hann svo sannarlega sjá úr hverju Oddný Harðardóttir er gerð, hafi hann ekki séð það nú þegar.

Stjórn kvennahreyfingar
Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ
Sveindís Valdimarsdóttir
Álfheiður Jónsdóttir
Dagmar Lóa Hilmarsdóttir
Kristlaug María Sigurðardóttir
Anna Pála Magnúsdóttir



Svar ritstjóra

Það er óhætt að segja að Samfylkingarkonur hitti naglann á höfuðið í þessari grein sinni þegar þær segja að þeir dreifi drullunni sem eigi hana. Hér kjósa þær í vörn sinni fyrir fjármálaráðherra að dreifa mikið af drullu yfir ritstjóra blaðsins sem skammaði ríkisstjórn í síðasta ritstjórnarpistli fyrir slaka frammistöðu og fjármálaráðherra úr Garðinum fyrir að láta ekki til sín taka þegar hún komst í einn valdamesta stól ríkisstjórnarinnar.

Víkurfréttir eru ekki málpípa neins pólitísks flokks heldur svæðisins alls. Ritstjórinn hefur aldrei verið í pólitískum flokki eða skipt sér af pólitísku starfi og mun ekki gera. Víkurfréttir munu hins vegar halda áfram að berjast fyrir betra samfélagi á Suðurnesjum og veita þeim aðhald sem það þurfa. Núna er ástandið á Suðurnesjum alvarlegt og hvergi verra á öllu landinu. Ríkisstjórnin með fjármálaráðherra úr Garðinum getur gert miklu betur í því að koma til móts við erfitt ástand á svæðinu. Það hefur hún ekki gert nema að mjög litlu leyti og um það snerist umræddur leiðari.

Svona drulluskrif Samfylkingarkvenna eru þeim ekki til framdráttar og eru kannski lýsandi dæmi um hvað margir í pólitík leggjast lágt ef þeir eru gagnrýndir.

Páll Ketilsson.