Skipulag og lóðaframboð
Björn Sæbjörnsson, oddviti Sjálfstæðismanna og óháðra í Sveitarfélaginu Vogum.
Ég tel mjög mikilvægt að í okkar sveitarfélagi sé ávallt nægt framboð lóða til úthlutunar og hefur D-listinn alltaf talað fyrir því og lagt á það áherslu. Hugsa þarf vel fram í tímann og haga deiliskipulagi þannig að nóg framboð sé og sveitarfélagið geti úthlutað lóðum eins og þörf krefur. Það er ekkert launungarmál til að hagur okkar fari að batna verðum við að hafa þetta grundvallaratriði í lagi. Þau svæði sem við horfum til núna er lágreist einbýlis og raðhúsabyggð ofan við dalahverfi (ÍB-5) og hafnarsvæðisins (Íb-6) þar sem við sjáum fyrir okkur blandaða byggð þjónustu og íbúða í fjölbýli. Við viljum sjá endurvinnslustöð Kölku við Jónsvör flutta á iðnaðarsvæðið, gamla vigtarskúrinn víkja og skipuleggja svæðið sem eina heild. Sveitarfélagið eignaðist Kirkjuholtið á síðasta ári og búið er að deiliskipuleggja svæðið fyrir íbúðabyggð og útivistarsvæði að hluta. Þessu var lokið í september og fæ ég ekki skilið af hverju er ekki búið að úthluta þessum lóðum nú þegar næg er eftirspurnin.
Mjög mikilvægt er líka að ná samkomulagi við meðeigendur okkar á óskiptu heiðarlandi Voga svo hægt sé að úthluta atvinnulóðum og sveitalagið geti skipulagt sína framtíðaruppbyggingu til lengri tíma.
Við horfum líka til strandarinnar og Hvassahrauns og viljum gera fólki kleift að búa á þessum svæðum og eiga lögheimili í sveitarfélaginu.
Við höfum barist fyrir því á liðnu kjörtímabili að taka fyrstu skrefin í þessa átt í vinnu við endurskoðun aðalskipulags. Þar höfum við viljað fá frístundabyggðinni í Breiðagerði breytt í íbúðabyggð dreifbýli. Við höfum ekki haft erindi sem erfiði þrátt fyrir að allir þeir sem skiluðu inn athugasemdum og búa á svæðinu hafi viljað sjá þessa breytingu. Einnig voru lögfræðileg álit fengin sem sögðu að ekkert væri þessu til fyrirstöðu. Með því að hafna þessu koma þeir íbúar sem þarna búa áfram til með að borga sína skatta til annara sveitarfélaga þar sem þeir neyðast til að hafa lögheimili og engir nýir bætast í hópinn. Fordæmin eru til staðar í Brunnastaðahverfi.
Þegar horft er lengra til framtíðar teljum við að Flekkuvíkin sem nú er skilgreind sem iðnaðarsvæði ætti að fara undir íbúðabyggð og líklega er það svæði eitt af þeim bestu nágrenni höfuðborgarsvæðisins þegar fram líða stundir.