Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Skipuð verði stjórn sem móti framtíðarstefnu HSS
Föstudagur 11. febrúar 2022 kl. 10:39

Skipuð verði stjórn sem móti framtíðarstefnu HSS

Stjórn Öldungaráðs Suðurnesja skorar á heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, að beita sér fyrir því að sett verði á laggirnar sérstök fimm manna stjórn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Stjórnin verði skipuð tveimur fulltrúum frá Reykjanesbæ og sveitarfélögin Grindavík, Suðurnesjabær og Vogar tilnefni einn fulltrúa hvert.

Hlutverk stjórnarinnar verði að fylgjast með rekstri og móta framtíðarstefnu í samráði við yfirstjórn HSS.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Staða HSS hefur á síðustu árum verið mjög erfið og mikillar gagnrýni gætt meðal íbúa Suðurnesja í garð stofnunarinnar. Mikil íbúafjölgun hefur verið á Suðurnesjum síðustu ár og hefur HSS ekki fengið fjárveitingu frá Alþingi í samræmi við það. Afleiðingarnar eru þær að fjöldi íbúa á Suðurnesjum neyðast nú til að leita til höfuðborgarsvæðisins eftir grunnheilbrigðisþjónustu. Sú þróun hlýtur eðli málsins samkvæmt einnig að hafa slæm áhrif á uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á svæðinu. 

Nú boða stjórnvöld að til standi að skipa sérstaka stjórn við Landspítalann í þeirri trú að það muni styrkja og efla stofnunina. Stjórn Öldungaráðs Suðurnesja telur að sömu rök gildi fyrir skipan sérstakrar stjórnar við HSS. Sambærilegt fyrirkomulag var áður um HSS og gaf góða raun enda veitti það heimamönnum tækifæri til að fylgjast með rekstri og gera tillögur um hvað betur mætti fara. 

Það er nauðsynlegt í jafn fjölmennu samfélagi og Suðurnesin eru að starfandi sé öflug og sterk heilbrigðisstofnun, sem þjónusti íbúana vel. Það verður best gert með því að fá fulltrúa heimamanna að stjórnarborðinu.

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson,
formaður stjórnar.
Öldungaráðs Suðurnesja.