Skiptar skoðanir um hugsanlegt álver í Helguvík
Dagana 28. nóvember til 4. desember gátu lesendur á vef Víkurfrétta svarað spurningunni „Vilt þú álver í Helguvík?“ Af liðlega 1.500 þátttakendum svöruðu 780 (52%) spurningunni játandi og liðlega 610 (41%) svöruðu neitandi. Um 7% þátttakenda voru hlutlausir. Rétt er að halda því til haga að nokkur óvissa og hugsanleg skekkja kann að leynast í könnunum af þessu tagi þar sem ekki er um slembi úrtak úr þjóðskrá að ræða. Með skráningu á IP tölum er þó gengið úr skugga um að aðeins eitt atkvæði komi frá hverri tölvu. Niðurstöðurnar benda engu að síður sterklega til þess að skiptar skoðanir séu um málið á meðal lesenda Víkurfrétta og líkega á hið sama við um Suðurnesjamenn almennt.
Orkuþörf álversins
Norðurál áformar að reisa 250.000 tonna álver í Helguvík fyrir 2015. Ef marka má upplýsingar um stærðarhagkvæmni álvera og arðsemi fjárfestinga er þó ástæða til að ætla að álverið eigi eftir að stækka töluvert þegar frá líður. Nái áform um 250.000 tonna álver í Helguvík fram að ganga þarf að afla orku sem nemur 3,8 TWst. Fyrir hugsanlega stækkun í Straumsvík þarf 4,4 TWst. Orkuþörf hugsanlegrar uppbyggingar á stóriðju á Suðvesturhorninu til ársins 2015 er því 8,2 TWst. Til viðmiðunar má benda á að heildar raforkunotkun á Íslandi í dag er um 8,6 TWst. Orkuþörf áformaðrar stóriðju á Suðvesturhorninu samsvarar fjórum nýjum virkjunum í Þjórsá auk þess sem reisa þarf fimm til sjö nýjar jarðvarmavirkjanir á svæðinu frá Hengli og út á Reykjanes. Þar er m.a. horft til Trölladyngju svæðisins austan Keilis auk Seltúns, Sandfells og Austurengja í Krýsuvík. Með greininni eru settar fram tvær sviðsmyndir þar sem spáð er fyrir um raforkuþörf til 2015.
Djúpborun
Djúpborun hefur verið nokkuð til umræðu á undanförnum árum en með henni er stefnt að því að bora dýpra niður á heitara vatn en gert er í dag. Nái verkefnið fram að ganga gæti orkuvinnslugeta hvers svæðis e.t.v. fimmfaldast. Það þýðir að starfandi jarðvarmavirkjanir í Suðurkjördæmi, þ.e.a.s. Reykjanesvirkjun, Svartsengi, Hellisheiði og Nesjavellir, gætu hver um sig framleitt álíka mikla raforku og Kárahnjúkavirkjun. Með djúpborun ætti því að vera hægt að sjá stóriðju á Suðvesturhorninu fyrir raforku án þess að virkja fleiri ný svæði. En til þess að svo megi verða þurfa orkufyrirtækin, álframleiðendur og sveitarstjórnarmenn að sýna tilhlýðilega biðlund. Ef marka má orð Júlíusar Jónssonar, forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, og Guðmundar Ó. Friðleifssonar, verkefnisstjóra djúpborunarverkefnisins, á fréttastöðinni NFS fyrr á árinu má ætla djúpborunarverkefnið kunni að skila af sér raforku eftir 6 - 15 ár. Í þessu ljósi ber að hægja á málinu og vinna að áformum um hugsanlega stóriðju í Helguvík með opnu og lýðræðislegu samráði við íbúa svæðisins áður en ákvarðanir verða teknar. Hér er um að ræða framkvæmdir sem munu hafa gríðarleg áhrif á samfélag, umhverfi og náttúru svæðisins, til langs tíma litið. Í því samhengi eru nokkur ár ekki langur tími en sú biðlund skynseminnar gæti engu að síður bjargað mörgum af náttúruperlum skagans.
Bergur Sigurðssson, framkvæmdastjóri Landverndar.