Skínandi börn í skammdeginu
Að gefnu tilefni þá viljum við hvetja foreldra og aðstandendur ungra skólabarna að muna eftir endurskinsvestunum sem FFGÍR og Spkef gáfu nemendum í fyrra. Það er nú sem endranær mikilvægt að börnin sjáist vel í umferðinni á leið sinni úr og í skóla.
Öll börn í 1.-3. bekk fengu endurskinsvesti að gjöf frá FFGÍR og Spkef. Nú er lag að nota vestin. Við sjáum mörg börn nota vestin daglega á leið sinni í og úr skóla. Það gleður okkur að sjá börnin nota gjöfina og vita að hún hangir ekki inní skáp engum til gagns. Það er samt sem áður of fjölmennur hópur barna sem notar þau ekki en eru samt að ganga í og úr skóla. Þau eru oft á tíðum dökk klædd og sjást illa.
Það er mikill munur að sjá börn sem eru í vestum og þau sem eru eingöngu með endurskinið af skólatöskunum. Við hjá FFGÍR gáfum endurskinsvestin með það markmið að öll börn í 1.-3.bekk í Reykjanesbæ yrðu sýnileg í umferðinni.
Látum börnin í Reykjanesbæ vera skínandi í skammdeginu. Leiðbeinum þeim um notkun á endurskinsvestum. Ef barnið þitt er í 1.-3. Bekk í Reykjanesbæ og vantar endurskinsvesti hafðu þá samband á netfang [email protected].
Ingigerður Sæmundsdóttir, verkefnastjóri FFGÍR