Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru góð fyrir heimili og fyrirtækin
    Frá Reykjanesbæ, hluta Suðurnesja.
  • Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru góð fyrir heimili og fyrirtækin
Mánudagur 19. maí 2014 kl. 10:26

Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru góð fyrir heimili og fyrirtækin

– 20 atriði um lægri skatta og velferð. Ásmundur Friðriksson skrifar.

Það er ágætt að fara með bætta stöðu heimila og fyrirtækja inn í sumarið og skoða 20 jákvæð atriði sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur komið í verk. Ríkisstjórnin lagði upp með það að lækka álögur á heimilin og atvinnulífið í landinu. Það hefur tekist og ríkisstjórnin hefur beygt inn á þá leið sem lofað var og sýnt á spilin en mörg tromp eru enn á hendinni sem spilað verður út á kjörtímabilinu.

Ríkisstjórnin skilaði fyrstu hallalausum fjárlögum í 4 ár sem eru afar mikilvæg skilaboð um bætta fjárhagsstjórn í landinu. Á næstu árum skapast svigrúm til að greiða niður 400 ma gat á fjárlögum síðustu ára og lækka skuldir ríkisins. Það mun takast ef við höldum áfram á sömu braut og komum stóru tækifærunum í atvinnulífinu í gang.

Lækkun skatta á einstaklinga um 5.000 milljónir þótti mörgum ekki mikil lækkun, en í því ljósi að fyrrverandi ríkisstjórn ætlaði áfram að hækka skatta voru skilaboðin skýr og áfram verður haldið með skattalækkanir á einstaklinga og fyrirtæki.

Ósanngjarn auðlegðarskattur sem fyrst og fremst lagðist á eldra fólk verður ekki framlengdur og fyrsta skrefið í lækkun Tryggingagjalds um 1.000 milljónir er vísbending um að á kjörtímabilinu verði það lækkað um 4.000 milljónir. Þá stóð ríkisstjórnin fyrir lækkun veiðigjalda en í ár eru veiðigjöld áætluð 8.000 milljónir en fyrri ríkisstjórn hafði áætlað 18.000 milljónir í veiðigjöld á árinu 2014. Þetta gera lækkun skatta um 25.000 milljónir. Þá eru ótaldar gjaldskrárlækkanir tengdar kjarasamningum sem eru að koma frá þinginu og lög verða samþykkt á Alþingi fyrir þinglok sem tryggja 150.000 milljóna króna lækkun á skuldum heimilanna með blandaðri leið sparnaðar og niðurfærslu höfuðstóls.

Einu aðilarnir sem skattar hafa verið hækkaðir á eru slitastjórnir föllnu bankanna og fjármálafyrirtæki og greiða þau 20.000 milljónir á ári og verða þeir fjármunir nýttir til að lækka skuldir heimilanna eins og fram hefur komið. Hefur einhver á móti því?

Dregið var úr skerðingum bóta  ellilífeyrisþega og öryrkja og frítekjumark hækkað úr 490.000 á ári í um 1.100.000 og nú geta bótaþegar unnið sér inn aukalega 109.000 kr. á mánuði án þess að skerða bætur. Kostnaður vegna þessa nemur 8.000 milljónum á árinu 2014 auk þess sem 10.000 milljónir voru settar í heilbrigðiskerfið og við ætlum ekki að staðnæmast þar. Endurreisn heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni og bætt aðstaða Landspítalans eru næstu verkefni.

Það eru jákvæð teikn á lofti, hagvöxtur er 3,3%, aukin áhugi erlendra fjárfesta á landinu, það er eftirspurn eftir nýju íbúðarhúsnæði og fleiri flytja til landsins en frá því. Endurskoðun virðisaukaskattsins er hafin þar sem einföldun er höfð að leiðarljósi, bætt innheimta og fækka undanþágum. Við ætlum að halda áfram á leið lægri skatta, aukins kaupmáttar og velmegunar í samfélaginu. Bæta heilbrigðiskerfið, skólana og einfalda umgjörðina og regluverkið um atvinnulífið. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er á réttri leið.

Ásmundur Friðriksson
alþingismaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024