Skerðing á heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga hefur Heilbrigðisráðuneytið gefið út tilskipun um að draga saman í heilbrigðismálum um 10%. Þetta þýðir að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þarf að draga saman kostnað um 200 milljónir.
Til eru tölur sem sýna að reksturinn hér er hagstæður miðað við aðrar heilbrigðisstofnanir, og augljóst að ekki er hægt að spara svo mikla peninga öðruvísi en að loka deild eða deildum og segja upp starfsfólki. Til margra ára hafa fjárveitingar til HSS verið mun lægri á hvern íbúa en til annarra sambærilegra heilbrigðisstofnana.
Ráðuneytið gaf stjórnendum stofnunarinnar aðeins rúman sólarhring til að skila tillögum sínum að sparnaði en jafnframt var komin tilskipun frá þeim um að loka skurðstofunni. Það væri mikil skerðing á þjónustu við íbúa svæðisins. Ljóst er að starfsemi Fæðingardeildar skerðist til mikilla muna frá því sem nú er. Við búum í ört vaxandi samfélagi við hliðina á alþjóðaflugvelli og segir sig sjálft að öryggi íbúanna er stefnt í hættu. Reykjanesbrautin þykir örugg fyrir okkur til að flytja fólk í neyð á sjúkrahús í Reykjavík, en ekki nógu örugg til að flytja innanlandsflugfarþega á Keflavíkurflugvöll.
Við hjúkrunardeildarstjórar og yfirljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja viljum bæði sem fagmenn og íbúar svæðisins vekja athygli íbúanna á þessum fyrirhuguðu ráðstöfunum og treystum því að fólk láti ekki bjóða sér þetta þegjandi.
Hugmyndir eru uppi um að halda borgarafund um þessi málefni í næstu viku, þar sem við vonumst til að íbúarnir fjölmenni og sýni samstöðu. Við munum auglýsa hann á Víkurfréttavefnum þegar staður og stund er komin í ljós.