Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 2. janúar 2002 kl. 16:27

Skemmtileg stemning

Ágætu lesendur
Um leið og ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs vil ég lýsa ánægju minni með þann fjölda sem lagði leið sína á Hafnargötuna á Þorláksmessukvöld. Verslunar- og þjónustuaðilar eiga þakkir skildar fyrir þeirra framlag í formi Jóladaga í Reykjanesbæ. Jólasveinar og tónlistarfólk lék við hvurn sinn fingur og ungir sem aldnir skemmtu sér konunglega við að rölta um bæinn, versla og heilsa uppá vini og kunningja. Þetta kvöld mátti sjá marga brottflutta Suðurnesjamenn á gangi í miðbænum, líkt og á Ljósanótt, og ljóst að þessi tvö kvöld eru að verða með allra skemmtilegustu dögum ársins í bæjarlífinu. Fólk annars staðar frá er farið að sækja okkur heim á þessum dögum og er það vel. Ég hitti nokkra vini og kunningja sem búsettir eru erlendis, en voru heima í jólafríi, og heyrði á þeim að þeim fannst frábært að geta með nokkrum gönguferðum upp og niður Hafnargötuna á Þorláksmessu hitt fjölda vina og kunningja sem þeir hefðu annars ekki náð að heilsa upp á.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur mótað stefnu sína í enduruppbyggingu Hafnargötunnar. Undirbúningsvinna mun hefjast á þessu ári og ráðgert að framkvæmdir hefjist á næsta ári, 2003. Ljóst er að það mun taka töluverðan tíma að gera Hafnargötuna upp en þegar þeirri vinnu lýkur ættum við að hafa enn betra og fallegra umhverfi til þess að spóka okkur um í, til hagsbóta fyrir aðila í verslun og þjónustu í miðbænum. Ég hvet bæjarbúa til þess að halda uppteknum hætti, mæta í miðbæinn þegar vel viðrar, taka með sér gesti og versla heima.

Kjartan Már Kjartansson,
formaður Markaðs- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024