Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Skemmtiferðaskip til Keflavíkur
Mánudagur 15. mars 2004 kl. 21:11

Skemmtiferðaskip til Keflavíkur

Þrátt fyrir að ennþá sé mars að þá hlýtur veðurfarið undanfarið misseri að vekja upp í manni sumartilfinningu þrátt fyrir að það hafi blautara en meðal sturtuferð. Þeir sem vinna við akstur eru fegnir að keyra á hálkulausum götum og seltan er búin að skolast af götunum þannig að nú er miklu þægilegra að þrífa bílana sína. Þið spyrjið af hverju ég er á þessum nótum þegar að fyrirsögnin tengist skemmtiferðaskipum. Jú vegna þess að nú er vorið hreinlega nánast rétt handan við hornið og flest bendir til þess að sumarið fylgi þar fast á eftir skömmu síðar (ég þyki vera athugull maður:).
Nú er ferðamálaráð og Reyknesinga skipað mjög hæfu fólki í hvívetna og veitir ekki af þar sem flestir landsmenn líta á Reykjanesið sem leiðinlegan og ljótan og jafnframt áhugalítinn útkjálka Íslands þar sem fólkið grenjar út af því að Kaninn er hugsanlega að fara og líka að við skulum láta okkur detta slík fásinna í hug að hentugt gæti verið að flytja innanlandsflugið hingað. Með þetta viðhorf að þá er starf ferðamálaráðs gert virkilega krefjandi og þarf að huga vel að hverju einasta atriði er lýtur að markaðssetningu Reykjanesskagans, bæði hvað varðar Íslendinga og útlendinga sem lenda í Leifsstöð og taka yfirleitt Flugrútuna sem fer oftast á fljúgandi ferð í bæinn þannig að fólk fær bara mýflugumynd af Reykjanesinu. En hvers vegna ekki að reyna eitthvað nýtt og fá hingað á svæðið nýja tegund af farþegum sem viðhafa einungis dagsdvöl en skilja oftast eftir sig þó nokkuð af peningum ef miðað er við tímann sem þau eyða hér á Íslandi.Hér er ég að tala um farþega að skemmtiferðaskipum sem hafa langoftast bara dagsdvöl hérna. Eins og er stoppa erlend skemmtiferðaskip í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði og á Húsavík. Þetta eru allavega þeir staðir sem ég veit að þau stoppa við. En af hverju ekki að athuga möguleikann að fá einhver þeirra til að koma hingað frekar en að fara til Reykjavíkur? Auðvitað eru nokkrar hliðar á öllum málum og mun ég nú benda á kostina sem því fylgja að koma hingað frekar en í bæinn.
Kostir. 1. Mun styttri siglingaleið en til Reykjavíkur þar sem ekki þarf að fara inn allan Faxaflóann.
2. Hægt að fara í sömu skoðunarferðir og eru farnar venjulega vegna þess að skipið kemur fyrr að bryggju og þá getur fólkið farið fyrr af stað í ferðirnar.
3. Aðkoma jafnauðveld og í Reykjavík og betri ef eitthvað er. Því þegar talið kemur að stærstu skipunum, og nú verð ég að taka fram að ég veit ekki dýptina á bryggjunni í Keflavík, að þá skiptir það í raun ekki máli vegna þess að oftast leggja stærstu skipin fyrir utan bryggjurnar í Reykjavík og ferja farþegana á milli í eigin bátum og gengur það nokkuð hratt fyrir sig. Ég hef sjálfur keyrt farþega úr ótal svona skipum og veit því hvað ég er að tala um að þessu leiti.
4. Rútur komast vel að til að lesta og losa. Þær myndu bara vera í einni röð frá landgangi og alla leið upp PÓSTH’USGÖTUNA. Þetta er ekki gata með mikla traffík þannig að ekki yrði teljandi truflun á umferð. Búkollurnar verða þá líklega hættar að keyra þarna.
5. Reykjanesbær hefur upp á allt að bjóða sem Reykjavík hefur en bara í minna magni.
Með fegrun bæjarins sem nú stendur yfir og er í höndum Nesprýðismanna og kvenna að þá verður útlit Hafnargötunar orðið allt annað en við erum vön og gerir þetta okkur að álitlegum kosti fyrir ferðamenn. Ég meina það er nú aðeins meira í boði í Reykjanesbæ en Húsavík og Ísafirði held ég og þarf ég ekkert að telja það upp en nægir að nefna nokkra golfvelli, sundlaugar, gokart, þónokkur söfn og fleira og fleira. Hins vegar er þetta ekki möguleiki fyrr en á næsta ári í fyrsta lagi vegna þess að bæði er búið að skipuleggja þetta sumar út í ystu æsar og þegar er hægt að fara inn á vefsíðu Reykjavíkurhafnar og skoða komudaga skemmtiferðaskipana í sumar. Ég pantaði mér bæklinga í fyrrahaust með áætlun fyrir þetta ár þannig að það er úr sögunni að fá þau á þessu ári. Enda verður Hafnargatan ekki tilbúin fyrr en í haust og svo þyrfti bærinn að laga nokkra aðra hluti áður held ég. Má þar nefna að laga malbikið á bryggjunni, biðja þá sem eiga hús í nágrenni bryggjunnar sem þarfnast smá andlitslyftingar að gera það, setja upp skilti sem benda fólki á miðbæinn og eitt og annað sem kæmi betur í ljós þegar að nær drægi. En þetta er ekki bara spursmál um bæjaryfirvöld sem eru í raun að gera mjög góða hluti í fegrun bæjarins að flestra mati held ég. Nei, í svona málum þurfa allir að taka höndum saman um að gera þetta að mjög álitlegum kosti fyrir farþega skemmtiferðaskipa. Það sem ég meina með því er að verslunareigendur verða að opna búðirnar á þeim tíma sem farþegar koma í land. Það er langoftast milli 7 og níu á morgnanna og koma þau líka á laugardögum og sunnudögum þannig að það þýðir ekkert að vera sofandi til 10 á þessum dögum og sumarlokanir yrðu að vera teygjanlegt hugtak. Reyndar myndu menn vita þetta með töluverðum fyrirvara þannig að það kæmi engum á óvart hvenær skipið kæmi. Svo er nú eitt sem að blessuð fyrirtækin sem eru umboðsaðilar þessara skipa hafa ekki athugað en það er hafa ferð um Reykjanesið í boði fyrir farþega og þá er ég ekki bara að tala um Bláa Lónið heldur allt svæðið. Tökum sem dæmi einn hring sem hægt væri að fara.
Brottför frá bryggju og keyrt áleiðis niður Hafnargötuna þannig að fólk fengi smjörþefinn af fegurð miðbæjarins. Keyrt sem leið liggur út á Garðskaga þar sem fólk myndi labba aðeins um fjöruna og jafnvel kíkja á byggðasafnið og vitann.Svo yrði haldið aftur af stað og farið beina leið í Fræðasetrið í Sandgerði og það skoðað. Aftur út í rútu og keyrt um bryggjuna, þetta er til dæmis eiginlega alltaf gert í Grindavík, og fólki sýndur meðal fiskibær. Svo kemur að kafla í ferðinni sem er ekki hægt að fara eins og er en ég hef nú lesið einhversstaðar að það sé á áætlun að gera veg frá Stafnesi yfir í Hafnirnar með tímanum þannig að þar opnast alveg gríðarlega skemmtilegur ferðamöguleiki fyrir fólk. En miðað við að þetta sé komið að þá yrði farið út í Stafnes og kirkjan skoðuð. Stuttu seinna yrði farið áfram eftir nýja veginn í gegnum Hafnir og stoppað við brúnna milli heimsálfa þar sem fólk gæti labbað þessu skemmtilegu leið og fengið skjalfestingu þess efnis. Síðan yrði farið út á Reykjanesvita og fólk gæti skoðað brimið í sjónum og þess háttar. Lengdin á svona stoppi færi alveg eftir veðri en þarna yrðu örugglega teknar margar ljósmyndir. Eftir það yrði farin restin af Reykjaneshringnum og komið við í Grindavík þar sem yrði hægt að snæða, eða jafnvel í Bláa Lóninu og enda daginn á baðferð. Tengd því er hægt að fara í gjánna og fá leiðsögn um það hvernig við Íslendingar nýtum jarðorku til hitunar. Útlendingum finnst þetta nánast undantekningalaust áhugaverður fróðleikur og ýtir undir hreinleikaímynd okkar. Hins vegar yrði hægt að vera með nokkrar útgáfur af þessari ferð og ein myndi vera eins og ég talaði um hér að framan fyrir utan Bláa Lónið en í staðinn fyrir að fara þangað yrði haldið áfram og keyrður Suðurstrandavegur, kannski væri hægt að gera stutt stopp í hinu glæsilega saltfisksetri þeirra Grindvíkinga áður. En nú kemur að kafla þar sem smá óvissa er fyrir hendi. En vegna þess að óvissa ríkir eins og er um lagningu þess vegar yrði að finna áhugaverða staði þar þegar að búið yrði að leggja hann. En samt er hann fullfær eins og hann er núna en nýr vegur yrði eingöngu til bóta og styð ég gerð hans algerlega. En á endanum myndu menn alltaf koma í Hveragerði og þar er Eden sjálfskipað stopp ef ekki væri nema bara fyrir klósettferð. Aðilar í ferðaþjónustu hafa talað um að þeir séu hlynntir nýjum Suðurstrandaveg vegna þess að þá opnast nýr möguleiki á ferðum um þetta svæði en samt væri hægt að fara Gullfoss og Geysi líka og er ég þar kominn að enn einum möguleikanum. Þrátt fyrir að ég sé að tala um að koma Reykjanesinu á kortið að þá fer ennþá mikill meirihluti ferðamanna á farþegaskipum í hinn svokallaða Gullna Þríhyrning og það held ég að breytist ekki, en eftir að nýr Suðurstrandavegur kemur að þá er ekkert sem mælir á móti því að fara í hinn Gullna Þríhyrning frá Keflavík í gegnum Grindavík og koma aðeins öðruvísi en vanalega í Hveragerði. Svo er auðvitað líka sá hópur fólks sem myndi vilja fara í Reykjavík og skoða sig um helstu ferðamannastaðina þar eða bara labba miðbæinn og þá víkur sögunni aftur að verslunareigendum hérna heima.
Staðreyndin er nefnilega sú að Íslendingar eru mjög duglegir að auglýsa að þeir séu með Tax Free shopping. Þetta þekki ég af eigin reynslu sem tollvörður í Leifsstöð þar sem sömu spurningunum um Tax Free er svarað ýkjulaust 50 sinnum á dag þegar að háannatími er og eru verslunarnóturnar alls staðar að af landinu. Hins vegar fer ekki mikið fyrir þessu hérna í Keflavík af því að við erum hreinlega ekki vön því að hafa útlendinga á vappinu hérna í búðarrápi en þá er komið að nokkrum tölulegum staðreyndum og einmitt það sem þessi grein mín gengur út á.
Hérna ætla ég að taka þrjú skip og sýna ykkur hvað við gætum fengið marga á “labbið” að kíkja í búðir, skipta við bankana, kaupa mat á veitingastöðum eða nýtandi sér einhvern af okkar afþreyingarmöguleikum.
Fyrst skal nefnt skip sem heitir Crystal Symphony og er á vegum Crystal Cruises. Það skip vegur 51.000 tonn og er í meðallagi stórt. Það tekur um 950 farþega og rúmlega 500 manna áhöfn. Segjum að það sé fullt, sem þau yfirleitt eru um sumarið, og 600 farþegar og 200 manns í áhöfn ætla að fara í ferðir sem boðið er uppá. Gefum okkur líka það að 200 áhafnarmeðlimir þurfi að vera að vinna. Það þýðir að 350 farþegar og 100 áhafnameðlimir eru ekki að gera neitt sérstakt. Hugsið ykkur að fá allt þetta fólk til að eyða heilum degi í Tax Free shopping og að vafra um götur bæjarins og nýtandi sér afþreyingarmöguleika sem bærinn og nágrannabæirnir bjóða upp á. Þarna gæti SBK komið sterkt inn í og verið með strætó á milli þessara helstu staða fyrir fólkið.
Annað dæmi er skip sem heitir Grand Princess og er í eigu Princess Cruises. Það skip vegur um 109.000 tonn og tekur 2600 farþega og 1100 í áhöfn. Svipað dæmi; 1800 farþegar og 400 í áhöfn ætla í ferðir. 800 farþegar og 400 í áhöfn eru laus. Samtals 1200 manns að vafra um götur Reykjanesbæjar eða nýta sér þá möguleika sem við myndum sjá til að þau myndu vita um áður en þau koma hingað með því að útbúa vandaða kynningarbæklinga sem þau gætu kynnt sér í skipinu áður en komið yrði að landi. En tókuð þið eftir fjöldanum, 1200!!!manns. Þetta er gífurlegur fjöldi og gæti skilið eftir fúlgur fjár í búðarkössum og veitingastöðum bæjarins ef þetta tækist hjá okkur. Grand Princess mun koma hingað í sumar í september og ætla ég pottþétt að skoða hana þegar þar að kemur. Ég get alveg viðurkennt það fúslega að skemmtiferðaskip eru persónulegt áhugamál hjá mér og ætla ég að koma hérna með eitt skip í viðbót sem ég er búinn að fylgjast með frá því að hugmyndin var sett fram en það er enginn önnur en Queen Mary 2. Hún er 150.000 tonn á þyngd og er stærsta skemmtiferðaskip sögunar. Til samanburðar að þá var Titanic 46.000 tonn á þyngd og Herjólfur okkar Íslendinga er 2200 tonn á þyngd. Farþegafjöldi hennar er ívið meiri og sama með áhafnameðlimi en hins vegar er hún mun lengri og voldugri. Til dæmis er hún jafn löng og 41 rauður London strætó og um 50 metrum lengri en Eiffelturninn svo þið hafið einhvern samanburð. Einnig kostaði hún um 800 milljón dollara, rétt tæplega eina Kárahnjúkavirkjun. Að lokum varðandi þetta skip að þá var það byggt með það sérstaklega í huga að stunda Atlantshafssiglingar og er það um helminginn af árinu að því, frá vori fram að hausti þannig að það er jafnvel raunhæfur möguleiki á því að fá það til að koma hingað við. Grand Princess hefur svo til eingöngu siglt í karabíska hafinu þannig að það er óvenjulegt að hún sé á þessum slóðum núna í haust. Einnig vill ég koma því að, að eftir hryðjuverkin að þá er þessi grein sú sem hefur vaxið hraðast í ferðamannabransanum þannig að skipakomum á ekki eftir að fækka.
En svo ég klári þetta nú að þá er það vinna að fá svona skip til að koma hingað og sannfæra umboðsaðila þeirra á Íslandi að við séum alveg í stakk búin til að taka á móti þeim hingað. Allir verða þó að leggjast á eitt í þessu máli, bæjarfélögin, hafnaryfirvöld,verslunareigendur, þeir sem eru með afþreyingarfyrirtæki, ferðamálafyrirtæki og líka hinn almenni íbúi því að þetta er okkar allra hagur og ef allir leggjast á eitt að þá er auðveldlega hægt að koma Reykjanesi á kortið sem virkilega spennandi kosti fyrir bæði útlendinga og Íslendinga sem vilja skreppa í dagsferð og eru komnir með pínu leið á ísnum í Eden. Ég geri mér líka grein fyrir því að ég er að hugsanlega að gleyma einhverju sem er áhugavert að skoða en ég vildi bara endilega koma umræðunni af  stað og sýna Suðurnesjamönnum að Reykjanesið hefur urmul af áhugaverðum stöðum þar sem gaman væri, fyrir utan allt tal um skemmtiferðaskip, að fá ferðaskrifstofur sem skipuleggja ferðir fyrir útlendinga um landið að hafa Reykjanesið sem hluta af ferðinni en það hefur ekki tíðkast nema að mjög svo takmörkuðu leiti. 
Góðar stundir.

Sigurbjörn Arnar Jónsson
Sérlegur áhugamaður um skemmtiferðaskip og ferðaþjónustu almennt.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024