Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Skemmdarverk eða hermdarverk?
Miðvikudagur 31. ágúst 2011 kl. 13:37

Skemmdarverk eða hermdarverk?


Ég sé mig knúna til svara vegna aðsendrar greinar sem byrtist á vef Víkurfrétta þann 26. ágúst sl. en greinin var send inn af bæjar- og varabæjarfulltrúum Samfylkingarinnar og bar heitið „Höldum okkur við efnið“.
Þar þóttust þessir bæjarfulltrúar koma fram með heilagan sannleika um hvað stæði í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Ég gæti sagt ýmislegt um að vegna tafa og hindrana frá VG í ríkisstjórn og undirlægjuháttar Samfylkingarmanna hafi mál tafist og orðið til þess að hindra atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Hver svo sem fyrirstaðan akkúrat núna er við hin ýmsu verk að loknum vel heppnuðum skemmdarverkum hins kommúníska hluta ríkisstjórnarinnar. En ég ætla mér að láta duga að svara því sem ég er vel inni í þ.e. málefnum skurðstofa á HSS. Eftir undirskriftasöfnun þar sem við söfnuðum yfir 4000 undirskriftum fullorðinna bæjarbúa þar sem krafist var að HSS mætti afla sér tekna og skapa atvinnu með aðstöðu sinni auk þess að bæta þjónustu við bæjarbúa samfara því, kom loks leyfi frá velferðarráðherra um að bjóða skurðstofurnar út. Ég fagnaði mikið þessari breyttu afstöðu frá því Álfheiður Ingadóttir var ráðherra en hún reyndist því miður blekking ein.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Til að gera langa sögu stutta þá reyndust þrír aðilar sýna áhuga á útboði skurðstofanna og tveir hópanna fengu að bjóða í verkið. Bæði tilboðin voru gild en hópur sá sem ég var í forsvari fyrir beið lægri hlut í útboðinu. Enda vildum við gera ráð fyrir verði á þjónustu sem TR gæti greitt ef þeir hefðu áhuga á að nýta sér þjónustuna sem í boði væri til hagsbóta fyrir íbúana. Verð okkar á þjónustunni voru því miðuð við verð hjá Landspítala og takmörkuðu þannig tekjumöguleika og leiguverð sem við gætum boðið.

Áhugi minn varðandi þessa þjónustu hófst árið 2009 þegar ég gerði rannsókn um möguleika okkar til lækningatengdrar ferðaþjónustu og þá var niðurstaða mín sú að við hefðum ennþá umframgetu og mikla möguleika sem nú er fyrir bí m.a. og einna helst vegna verka þessarar ríkisstjórnar. Ég hafði fyrir útboðið ítrekað skrifað greinar í MBL um að tími væri að renna út varðandi möguleika okkar til lækningatengdrar ferðaþjónustu á Íslandi vegna yfirvofandi landflótta heilbrigðisstétta og margar þar sem ég taldi gluggann til þessa möguleika aðeins vera opinn í um eitt ár. Þarna reyndist ég því miður sannspá.

Í greininni frá þeim Samfylkingarmönnum var setning sem ég sé mig knúna til að svara en hún er svona: „Hvað hugmyndir um sjúkrahús á Ásbrú og heilsutengda ferðaþjónustu varðar þá hefur komið á daginn að framkvæmdaaðliar drógu sig út úr verkefninu fyrir nokkrum mánuðum. Ekki sökum þess að ráðherrar hafi dregið fæturnar, heldur fyrst og fremst sökum þess að viðskiptavinir fengust ekki frá Evrópu. Viðskiptamódelið virðist einfaldlega hafa verið byggt á væntingum sem ekki stóðust. Sjálfgefið var þá að hætta við en sem betur fer var ríkið ekki búið að kosta hundruðum milljóna í verkefnið eins og til stóð. Heimild velferðaráðherra til útleigu skurðstofu HSS liggur þó fyrir og verið er að leita leigjenda“.

Vegna gríðarmikilla tafa og hindrana hefur tími og möguleikar runnið út í sandinn. Fjárfestar og aðilar sem hugðust starfa í lækningatengdri ferðaþjónustu standa ekki með fjármagn í tösku án ávöxtunar, viðbúnir síðbúnu kalli hins opinbera. Þeir hafa flestir fjárfest annar staðar eða flutt úr landi og/eða ráðið sig annarstaðar. Þá hefur breytt skattaumhverfi sem skapað hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar sett risastóran fleyg inn í möguleika okkar til að halda í eða fá til okkar heilbrigðisstarfsfólk. Á sama tíma og aðrar þjóðir bjóða gull og græna skóga og m.a. skattafríðindi fyrstu árin setti þessi ríkisstjórn á hátekjuskatta sem koma illa við þetta fagfólk. Hvað varðar útboðið á skurðstofunum sem ég og fleiri tókum þátt í þá var samningur þar að lútandi sendur til Ríkisendurskoðunar og þaðan til fjármálaráðherra eftir því sem ég best veit og er hann þar ennþá sex mánuðum eftir að tilboðið rann út. Samkvæmt fyrirspurn minni til Ríkiskaupa fyrir örfáum dögum fékk ég staðfest að leyfi ráðherra hefur ekki fengist til að leigja út skurðstofurnar. Leyfi hefur ekki fengist. Þeir bæjarfulltrúar sem skrifuðu greinina geta fengið afrit af þessum pósti frá mér ef þeir svo óska þessu til staðfestingar. Að HSS sé að leita að leigjendum finnst mér furðulegt þar sem aðilar sem lögðu fram tilboð voru tveir og leyfi ráðuneytis hefur ekki fengist eins og ég hef fengið staðfest. Hitt er annað mál að erfitt gæti orðið að safna sama hópi sérfræðilækna saman aftur í okkar tilviki. Skemmdarverk þessarar ríkisstjórnar gegn Suðurnesjum virðist því vel heppnað og hafa tekist með fulltingi, klappliðs og valblindum augum bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og kjósenda þeirra.

Með kveðju
Adda Sigurjónsdóttir