Skemmdarfíkn af verstu gerð
Reglulega má lesa um skemmdarstarfsemi af ýmsum toga í samfélagi okkar. Alltaf bregður manni jafn illa við þessum skemmdarverkum og veltur því fyrir sér hvernig standi á þessum gjörningi þeirra sem valda. Öfund, afbrýðissemi, reiði, ólæti, vanvirðing, hefnd, óþroski og hvað það heitir allt saman sem dregið er upp í orðabókinni um skemmdarfíkn. Eitt er víst að alltaf verður maður reiður í hjarta sínu þegar einhver verður fyrir barðinu á slíkum verknaði. Satt best að segja hugsar maður viðkomandi gerendum þegjandi þörfina. Um daginn var undirritaður beðinn um að aðstoða einn leikskóla í Reykjanesbæ um að gera börnunum þar glaðan dag ásamt gestum þeirra úr öðru leikskóla utan af landi. Það átti að sýna þeim hin ýmsu dýr sem lifa í sjónum og setja upp lítið fiskabúr niður við smábátahöfnina. Ekkert mál að bjarga svona skemmtilegri bón, reyndar var ég úti á landi og fékk dugmikinn sportkafara og liðsmann úr Bláa hernum til að bjarga málum. Samviskusamlega kafaði hann og týndi dýr úr sjónum í þetta fiskikar og lagði í þetta verkefni mikinn metnað. Svo skaust hann eftir köfunina aðeins frá til að skola græjurnar. Kom til baka eftir hálftíma og þá var búið að henda öllu saman í hafið og kerinu líka. Núna þurfti að redda öðrum kafara og endurtaka leikinn. Reyndar tókst það fyrir tilsettan tíma og höfðu börnin gaman af. Mér þætti gaman að sjá framan í þetta ólánsfólk sem framdi þetta skemmdarverk ef ég gerði eitthvað í þeirra garð sem það væri búið að leggja metnað sinn í að framkvæma til að sýna stolt einhverjum bæjarbúum og gestum þeirra. Svona framkoma er með öllu ólíðandi og vona ég svo sannarlega að einhver hafi séð til þessa fólks og geti frætt mig um málið.
Kær kveðja,
Tómas J. Knútsson kafari
Myndin tengist ekki efni greinarinnar með beinum hætti.