Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Skátalíf er útilíf
Laugardagur 21. júlí 2012 kl. 11:14

Skátalíf er útilíf

Jónsmessunæturhelgina 22. – 24. júní sl. lauk skátafélagið Heiðabúar formlegu starfi þar til næsta haust og skellti sér í félagsútilegu með skátana sína. Farið var út í Hafnir þar sem við höfðum fengið lánað gamla samkomuhúsið sem hefur verið lagað mikið að innan og er aðstaðan þar fyrir skátafélag sem okkar alveg frábær og notuðum við hana til að elda og borða en vorum að öðru leyti með tjaldbúð.  Umsjónaraðilum samkomuhússins færi ég sérstakar þakkir fyrir lánið á húsinu.

Það var kl. 17:00 þann 22. júní sem hópur hressra skáta mætti við Reykjaneshöllina og tók þar strætó og lá leiðin út í Hafnir. Þegar þangað var komið hófust allir handa við að reisa tjaldbúð og koma sér fyrir í laut við samkomuhúsið. Eldhústeymi var inni í húsinu á meðan að útbúa kvöldmat handa hópnum. Að kvöldmat loknum hófst venjubundin dagskrá eins og er alltaf í svona útilegum.  Fánaathöfn og leikfimi fyrir morgunverð, póstaleikir með mörgum skemmtilegum póstum, kvöldvökur þar sem krakkarnir sáu um að flytja frumsamin skemmtiatriði auk þess sem það var sungið og hrópað að skátasið, það var farið í langa göngu inn eftir heiði, tjaldskoðun og fleira og fleira. Svona leið tíminn alla helgina, yngstu skátarnir fóru heim daginn eftir en hinir daginn þar á eftir. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það var bros á hverju einasta andliti þegar skátarnir komu heim þreyttir eftir vel heppnaða félagsútilegu.  
Veðrið var með allra besta móti og það var hreint yndislegt að vera í Höfnunum þessa helgi, eiginlega eins og í Paradís. Friðsældin mikil, fuglasöngur, hestar á beit í girðingu rétt hjá, hundar að skokka og forvitnast um okkur, auk þess sem við fengum virðulegan kött í heimsókn.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Framundan er Landsmót skáta 20. – 29. júlí á Úlfljótsvatni og á það hafa nokkrir hressir Heiðabúar skráð sig. Undirrituð ætlar að vera á mótinu allan tímann og hlakkar gríðarlega til. Laugardagurinn 28. júlí verður heimsóknar- og kynningardagur á mótinu og hvet ég alla sem vettlingi geta valdið að fá sér bíltúr austur fyrir fjall og heimsækja mótið og taka jafnvel þátt í stóru kvöldvökunni um kvöldið. Það er fátt ef nokkuð skemmtilegra en skátakvöldvaka og er þessi í algjörum sérflokki þar sem þúsundir skáta af mörgum þjóðernum skemmta sér saman á sína rómuðu skátavísu.

Um leið og  ég þakka skátunum og foringjunum fyrir samstarfið í vetur óska ég þeim gleðilegs og gæfuríks sumars.  Við hittumst hress og kát í ágúst, en þá hefjum við starfið að nýju.
Athygli er vakin á að myndir frá 17. júní og félagsútilegunni eru komnar á heimasíðu Heiðabúa. Slóðin er www.heidabuar.is og www.skatafelag.is

Með skátakveðju,
Vilborg Norðdahl félagsforingi
skátafélagsins Heiðabúa.