Sjúkraflutningar á Suðurnesjum
Þann 28. október sl. kom fram á fundi með Sjúkratryggingum Íslands að heilbrigðisráðuneytið ætlaði að lækka einhliða samningsbundnar greiðslur vegna sjúkraflutninga, sem Brunavarnir Suðurnesja hafa sinnt í rúma tvo áratugi.
Á fundi stjórnar Brunavrna Suðurnesja þann 4. nóvember s.l. var eftirfarandi bókað vegna málsins.
,,Ljóst er að verulegur munur er á raunkostnaði við sjúkraflutninga og greiðslum frá ríkinu vegna þessarar þjónustu og með einhliða ákvörðun ráðuneytisins mun hlutur sveitarfélaga aukast verulega.
Stjórn B.S. getur ekki litið á einhliða ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins öðruvísi en að um uppsögn á samningi sé að ræða.
Stjórn Brunavarna Suðurnesja lítur svo á að hafi ekki tekist samningar um sjúkraflutninga fyrir 1. júlí 2010 séu sjúkraflutningar á svæði B.S. komir úr höndum Brunavörnum Suðurnesja og á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins. Stjórnin lýsir sig reiðubúna til samninga um sjúkraflutninga á Suðurnesjum.‘‘
Í framhaldi af bókun stjórnar B.S. hefur verið fjallað um málefni sjúkraflutninga og heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Í sveitarstjórnum Sveitarfélagsins Garðs, Voga og Reykjanesbæjar hefur umfjöllunin öll verið á sama veg þ.e. að mikil eindrægni og samstaða við afstöðu stjórnar B.S. vegna málsins og er ánægjulegt að finna þá samstöðu sem sveitarfélögin sem standa að rekstri B.S. sýna í þessu veigamikla máli.
Brunavarnir Suðurnesja hefur verið með samning um sjúkraflutninga á Suðurnesjum utan Grindavíkur frá árinu 1988. Á þessum tíma hefur mikil þróun orðið í sjúkraflutningum og kröfur aukist í takt við auknar kröfur og þróun í heilbrigðisgeiranum. Samningurinn frá 1988 var endurnýjaður 1. janúar 1990 en þá tóku við ný lög sem kváðu á um að ríkið sjái um rekstur heilsugæslustöðva á landinu og þar með sjúkraflutninga. Í samningnum frá 1990 var gert ráð fyrir að tveir menn væru á vakt og einn á bakvakt og greiðsla fyrir þessa þjónustu uppreiknuð til síðustu áramóta er 56.milljónir kr. nú 20. árum seinna er greiðslan 70.milljónir en samkvæmt núverandi samninga eiga að vera 4 menn á vakt allan sólarhringinn tilbúnir að sinna útköllum. Kröfur um menntun og þjálfun starfsmanna aukist mjög og fjöldi útkalla hefur nærri þrefaldast á þessum tíma. Raunkostnaður við sjúkraflutninga er 138 milljónir en greiðslur frá heilbrigðisráðuneytinu eru áætlaðar fyrir árið 2010. 66.6.milljónir . Ef litið er til upphaflegs samnings og þess mannafla sem núverandi samningur gerir ráð fyrir ætti greiðslan í dag að vera u.þ.b. 112milljónir . Það sjá allir sem vilja sjá að það er engin sanngirni í þeirri greiðslu sem B.S. fær greitt í dag fyrir sjúkraflutninga og það er algjörlega óásættanlegt að það eigi að lækka einhliða greiðslur sem eru fyrir alltof lágar fyrir og þurfa að hækka til þess að eðlilegt geti talist.
Í þeim umræðum sem hafa skapast um heilbrigðismál á Suðurnesjum hefur verið sýnt fram á að svæðið er og hefur verið fjársvelt um langt árabil þannig að í dag munar hundruðum milljóna á fjárveitingum til þessa málaflokks á Suðurnesjum og þeim sem fær næstlægstu fjárveitingu, það vekur óneitanlega athygli að þær heilbrigðisstofnanir sem eru að fá lægstar fjárveitingar eru báðar í Suðurkjördæmi.
Það er vilji stjórnarmanna B.S. og sveitarfélagana sem standa að rekstri B.S. að sjúkraflutningar verði áfram reknir með sama fyrirkomulagi og verið hefur við líði s.l. tuttugu ár, en til þess að svo megi verða þarf vilja beggja samningsaðila þ.e. að heilbrigðisráðuneytið sýni þessarri mikilvægu grunnþjónustu sem sjúkraflutningar sannarlega eru þann skilning og þá virðingu sem þessi starfsemi á skilið og ganga til samninga með því hugafari að eðlileg greiðsla komi fyrir þá þjónustu sem veitt er.
Brunavarnir Suðurnesja hefur í gegnum árin lagt mikinn metnað í að standa vel að sjúkraflutningum á Suðurnesjum og hefur á að skipa gríðarlega hæfum starfsmönnum á þessu sviði. Miklum fjármunum hefur verið varið í menntun, fræðslu og æfingar starfsmanna og miðar það allt að því að bjóða íbúum á Suðurnesjum upp á þjónustu sem jafnast á við það besta sem gerist á landinu.
Það væri afturhvarf til fortíðar ef heilbrigðisyfirvöld kjósa annað fyrirkomulag í þessum málaflokki.
Það er von mín og trú að heilbrigðisráðuneytið hafi það að markmiði að ná sanngjörnum samningi þannig að báðir samningsaðilar geti vel við unað, þannig að sú mikilvæga grunnþjónusta sem starfsmenn Brunavarna Suðurnesja inna af hendi við íbúa á Suðurnesjum verði tryggð til framtíðar.
Jón Guðlaugsson
slökkviliðsstjóri
Brunavarna Suðurnesja