Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ á sunnudag

-Holl hreyfing og samvera

Kæru Suðurnesjastelpur,

 

Lykillinn að vellíðan er að hugsa á heilbrigðan hátt um sig sjálfan og aðra. Heilsa er allt í senn andleg, líkamleg og félagsleg. Konur eru því hvattar til að fagna því að þær eru eins ólíkar og þær eru margar og njóta þess fjölþætta ávinnings sem fylgir heilbrigðum lífsháttum svo sem jákvæðu hugarfari, daglegri hreyfingu og hollum matarvenjum.

 

Mikil ánægja og þátttaka hefur verið í Kvennahlaupinu á undanförnum árum. Í Kvennahlaupinu eiga mæðgur, systur, mömmur, ömmur, frænkur og vinkonur á öllum aldri notalega stund saman. Hver og ein tekur þátt á sinn hátt og á sínum hraða, margar labba, aðrar skokka, sumar skokka og labba til skiptis og svo hlaupa líka einhverjar allan tímann.

 

Hlaupið verður frá ýmsum stöðum á Suðurnesjum og í Reykjanesbæ verður hlaupið frá K-húsinu, Hringbraut 108 við fótboltavöllinn og er valið um þrjár vegalengdir; tvo, fjóra eða sjö kílómetra. Vegalengdin sem hver og ein kona velur er ekki aðalmálið heldur að vera með og hafa gaman.

 

Gaman væri að sem flestar konur með og ef þú sérð þér ekki fært um að labba, skokka eða hlaupa, þá væri frábært ef þú myndir fara út í dyr heima hjá þér og hvetja hraustu konurnar þegar þær hlaupa fram hjá og jafnvel að hafa hressa tónlist í gangi. Þær sem verða út úr bænum þennan dag geta hlaupið hvar sem er á landinu eða erlendis. Aðalmálið er að hreyfa sig og vera með.

 

Best er að skrá sig á fimmtudag og föstudag. Skráning fyrir Reykjanesbæ fer fram kl.17-19 í K-húsinu, Hringbraut 108. Þátttökugjald er 2000 kr. fyrir eldri en 12 ára og 1000 kr. fyrir 12 ára og yngri. Innifalið í verðinu er flottur ferskjubleikur bolur, verðlaunapeningur, Egils Kristall og frítt í sund eftir á í Vatnaveröld. Á sunnudaginn kl.10:30 geta þær skráð sig sem ekki komast í forskráninguna.

 

Koma svo stelpur, náum núna að slá met í Reykjanesbæ og fá 600 stelpur til að vera með. Ekki bíða eftir rétta veðrinu til að hreyfa þig. Við búum á Íslandi. Rétta veðrið kemur nokkrum sinnum á dag.

 

Hlökkum til að sjá sem flestar konur í hlaupinu á sunnudaginn kl.11.

Byrjum með upphitun með Huldu Lár kl.10:55.

 

Með hlaupakveðju,

Guðbjörg, Maggý og Birna,

verkefnisstjórar SJÓVÁ Kvennahlaups ÍSÍ í Reykjanesbæ 2017