Sjónarmið Reykjanesbæjar vegna ummæla forsvarsmanna SEM-samtakanna
Þann 25. október sl. kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Arnars Helga Lárussonar og Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra gegn Reykjanesbæ og Eignarhaldsfélaginu fasteign ehf. Hæstiréttur sýknaði Reykjanesbæ og Eignarhaldsfélagið fasteign ehf. og staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjaness sem kveðinn var upp þann 24. nóvember 2016.
Arnar Helgi og aðrir forsvarsmenn SEM-samtakanna hafa tjáð sig nokkuð í fjölmiðlum um niðurstöðuna eftir að dómurinn var kveðinn upp í síðustu viku. Forsvarsmenn Reykjanesbæjar vilja því að þessu tilefni koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum:
Þau sjónarmið sem Arnar Helgi og SEM-samtökin hafa lýst í tengslum við þennan málarekstur almennt eru réttmæt og sanngjörn. Það er eðlilegt að allt samfélagið geri þá kröfu til sveitarfélaga og annarra opinberra aðila að aðgengismál í opinberum byggingum séu ávallt eins góð og kostur er. Um það getum við vonandi flest verið sammála.
Reykjanesbær hefur í nokkur ár unnið skipulega að aðgengismálum, með það að leiðarljósi að bæta og auka aðgengi fatlaðs fólks að stofnunum og mannvirkjum sveitarfélagsins sérstaklega. Árið 2008 var gerð sérstök úttektarskýrsla á aðgengismálum fasteigna á Hafnargötu. Tók úttektin bæði til stofnana og verslunarhúsnæðis. Á árinu 2012 var hafist handa við að meta úrbótaþörf í öllum stofnunum bæjarins. Í framhaldi af þeirri vinnu var gerð fjárhagsáætlun vegna kostnaðar við að bæta aðgengi að þessum stofnunum. Í kjölfarið hafa ýmsar endurbætur verið unnar á opinberum byggingum í Reykjanesbæ. Á sama tíma hefur bærinn gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu vegna fjárhagsörðugleika og því hefur ekki verið hægt að ráðstafa nægilega miklum fjármunum í ýmis konar aðkallandi verkefni.
Málareksturinn sneri að tveimur byggingum í Reykjanesbæ. Þrátt fyrir að aðgengismál í þessum byggingum séu langt frá því að vera eins góð og þau gætu verið þá hafa ýmsar endurbætur verið unnar á þeim á undanförnum árum og kappkostað að bæta aðgengi í og við byggingarnar. Þá hefur einnig verið ráðist í framkvæmdir til að bæta aðgengi fatlaðra í og við grunn- og leikskóla, sund- og íþróttamannvirki og í ráðhúsi bæjarins. Þá er unnið að bættu aðgengi almennt í bæjarfélaginu með upphækkuðum gangbrautum eða lægri köntum. Þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar í síðustu viku þá eru forsvarsmenn Reykjanesbæjar meðvitaðir um að gera þurfi enn betur í þessum málum.
Sjónarmið Reykjanesbæjar í dómsmálinu hafa frá upphafi verið skýr. Bærinn hefur uppfyllt lagaskyldur sínar að öllu leyti og hagað ákvörðunum sínum og gerðum með málefnalegum hætti. Fyrir liggur úrbótaáætlun og fjárhagsáætlun sem unnið hefur verið eftir. Þá hafa dómstólar fallist á þau sjónarmið Reykjanesbæjar að sveitarfélög séu sjálfstæð, ekki síst þegar ákvarðanir eru teknar um útgjöld úr tekjustofnum eða forgangsröðun í opinberum framkvæmdum.
Umræðan síðustu daga er hvatning til forsvarsmanna Reykjanesbæjar um að gera enn betur á þessu sviði.
Með góðum kveðjum,
Kjartan Már Kjartansson,
bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Tengdar fréttir: Gáttaður á dómi hæstaréttar