Sjómenn hræðast mest eld um borð
Ef sjómenn eru spurðir hvað þeir hræðist mest við að vera á sjó þá segja vafalaust flestir eldsvoða. Það er nefnilega þannig að þegar kviknar í bát, í togara eða skipi, sem er staddur úti á sjó og tala nú ekki um þegar að mjög langt er í land, þá er engin flóttaleið nema sjórinn sjálfur sem er nú ekkert lamb að leika sér við.
Í október kviknaði eldur í togbátnum Frosta ÞH þegar hann var á veiðum á Halanum úti við Vestfirði. Draga þurfti bátinn til Hafnarfjarðar og við skoðun kom í ljós að allt rafkerfið í bátnum og allar rafmagnstöflur í bátnum voru ónýtar. Síðan eru liðnir um sjö mánuðir og ennþá er Frosti ÞH ekki kominn á veiðar. Mjög flókið er að endurnýja heilt rafkerfi í bát.
Eldsvoði svipaður og gerðist í Frosta ÞH kom upp í togaranum Sóleyju Sigurjóns GK þegar togarinn var á rækjuveiðum utan við Norðurland nú í vikunni. Eldurinn var staðbundinn við vélarrúmið og var mjög mikill sem leiddi til þess að skipið varð vélarvana. Togarinn Múlaberg SI tók Sóleyju Sigurjóns GK í tog og dró það til Akureyrar. Skemmdir eru mjög miklar á Sóleyju Sigurjóns GK og óvíst hversu langan tíma það tekur að gera við þær.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem eldur kviknar í Sóleyju Sigurjóns GK. Í september árið 2015 kviknaði eldur í togaranum þegar hann var á rækjuveiðum norður af landi, þegar rör-nippill á þrýstijöfnunarkút á fæðiolíukerfi ljósavélar brotnaði og gasolía sprautaðist á afgasgrein ljósavélarinnar sem olli eldsvoða. Skemmdir urðu ekki miklar þá.
Þess má geta að í síðasta pistli þá var fjallað um fyrirtækið Þorbjörn ehf í Grindavík og nafnið Tómas Þorvaldsson. Það var einmitt línubáturinn Tómas Þorvaldsson GK sem tók Sóleyju Sigurjóns GK í tog í þessu atviki og dró til Siglufjarðar.
Sóley Sigurjóns GK var búinn að landa 65 tonnum núna í maí í tveimur túrum og af því var rækja 49 tonn. Berglín GK er með 41 tonn í tveimur og þar af 28 tonn af rækju.
Hendum okkur aðeins í aflatölur núna í maí. Hjá dragnótabátunum þá er Sigurfari GK með 159 tonn í tíu róðrum og þar af 35 tonn í einni löndun. Siggi Bjarna GK 127 tonn í tíu róðrum og mest 22 tonn. Benni Sæm GK 79 tonn í átta túrum og Aðalbjörg RE 66 tonn í átta. Aðalbjörg RE er reyndar komin að nokkru leyti í Þorlákshöfn.
Núna eru netaveiðarnar svo til að fjara út en eftir standa þó bátarnir hans Hólmgríms sem stunda netaveiðar allt árið um kring. Erling KE er með 146 tonn í tólf róðrum, Maron GK með 87 tonn í fimmtán, Grímsnes GK 80 með tonn í fjórtán, Halldór Afi GK með 35 tonn í fimmtán, Sunna Líf GK með 27 með tonn í níu, Hraunsvík GK með 26 tonn í ellefu og Valþór GK með 24 tonn í fimm.
Þorsteinn ÞH er hættur veiðum enda kláraði báturinn bara kvóta sinn sem var tæplega 290 tonn. Núna er þessi mubla kominn í slipp í Njarðvík, þar sem verður dyttað að honum.
Hjá stóru línubátunum er Sighvatur GK að veiða ansi vel og er kominn í 411 tonn í aðeins þremur róðrum eða 137 tonn í löndun. Tveir fyrstu túrarnir hjá Sighvati GK í maí voru fullfermi. Fyrri túrinn var 158.5 tonn og af því var þorskur 131 tonn og langa 14 tonn. Seinni túrinn var líka fullfermi en þá var landað 157 tonnum og af því var þorskur 133 tonn og langa 15 tonn.
Ansi langt er í næsta línubát því þar er Páll Jónsson GK með 247 tonn í þremur og Fjölnir GK 228 tonn í tveimur.