Aðsent

Sjávarútvegurinn og blessað góðærið
Lúðvík Börkur Jónsson.
Föstudagur 27. október 2017 kl. 12:00

Sjávarútvegurinn og blessað góðærið

Þegar góðæri geisar á Íslandi - þá á sjávarútvegurinn bágt. Þegar bullandi góðæri geisar þá fær þessi fyrrverandi undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar kvalarfullar innantökur. Þetta er ekki tilviljun heldur lögmál. Þetta er skrifað í skýin. Krónuskýin. Fylgifiskur allra íslenskra góðæra er annars vegar gengisstyrking krónunnar og hins vegar að laun hækka í landinu. Fyrir sjávarútvegsfyrirtæki er þessi kokteill alltaf baneitraður því eitt er að hækka laun en annað að þurfa að hækka laun einmitt þegar tekjur fyrirtækjanna eru að minnka samfara gengisstyrkingunni. Þessi hausverkur sjávarútvegsins verður síðan stöðugt verri eftir því sem góðærið stendur lengur. Sjómenn lækka í launum því laun þeirra eru tengd við afurðir sem lækka með sterkari krónu. Ef góðærið dregst úr hömlu þá fást ekki hásetar og enn síður vélstjórar. Þannig má áfram telja.

Nú er það ferðaþjónustan sem er drifkraftur góðærisins og upplifir að eigin velgengni, með íslenska krónu sem kjölfestu, leiðir til þess að einungis þeir sterkari lifa „góðærið“ af. Með íslenska krónu að vopni í örsmáu hagkerfi verður góðæri alltaf eins og vegasalt þar sem almenningur og útflutningsatvinnugreinarnar þurfa að skiptast á um að vera uppi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

En þetta þarf ekki að vera svona. Það eru til aðrar leiðir en víxlverkun góðæris og verðbólguskota. Viðreisn boðar raunhæfar lausnir í gjaldmiðlamálum með myntráð, mjög öflugan gjaldeyrisvarasjóð og íhaldssama skattastefnu. Ég hef trú á því að þá verði sveiflurnar minni og aginn í atvinnulífinu meiri.