Sjávarútvegsmál VG
Fyrir nokkrum árum síðan snerust Alþingskosningar aðallega um sjávarútvegsmál. Tárin runnu úr augum þáttastjórnenda og fleira fólks þegar rætt var um óréttlátt kvótakerfið. Allir frambjóðendur urðu ítrekað að útskýra vandlega hvernig þeir ætluðu að breyta eða afnema þetta óréttlæti þar sem kvótaeigendur eru lénsherrar, sjómenn kúgaðir leiguliðar og þjóðin fær lítinn sem engan arð að auðlindinni sem hún þó á samkvæmt laganna hljóðan.
Nú bregður svo við að það er varla minnst á þetta mikilvæga mál í yfirstandandi kosningabaráttu. Það er því sem næst gleymt. Samt er óréttláta kvótakerfið enn við lýði með kvótaeigendum sem geta rakað til sín fé með engri fyrirhöfn og sjómönnum sem þurfa að greiða lénsherranum nær helming af virði aflans fyrir það eitt að fá að fiska. Að vísu gerði vinstristjórnin nokkrar tilraunir til að tryggja betur eignarrétt þjóðarinnar á auðæfunum í sjónum en stórútgerðin hrundi þeim árásum með miklum lúðrablæstri. Ríkisstjórninni tókst þó að leggja hóflegan skatt á arðinn af sjávarútvegsauðlindinni við grát og kjökur þeirra sem láta eins og þeir eigi fiskinn í sjónum. Einnig tókst Steingrími J. og hans góða liði að koma á strandveiðum í upphafi kjörtímabilsins þrátt fyrir hrakspár. Strandveiðarnar hafa nú sannað gildi sitt með því að blása lífi í litlar sjávarbyggðir og gefa fjölda manns færi á að renna fyrir fisk og afla tekna.
Í kvöld ætla Vinstri græn að rjúfa þögnina um kvótakerfið og kryfja það mál í Nýja Bakaríinu við Hafnargötu í Keflavík, en þar er flokkurinn nú með kosningaskrifstofu. Björn Valur Gísason, alþingismaður, og Þórbergur Torfason, fiskeftirlitsmaður og framjóðandi í 3 sæti VG-listans í Suðurkjördæmi, hafa þar framsögu. Báðir gjörþekkja málið. Þetta getur orðið fróðlegur og funheitur fundur ef margir mæta.
Þorvaldur Örn Árnason, landkrabbi.