Sjálfstæðismenn stóðu við kjarabætur fyrir aldraða og öryrkja
Ásmundur Friðriksson skrifar.
Þann 4. júlí 2013 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 86/2013 sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lagði fram um breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem fólu í sér miklar kjarabætur fyrir aldraða og reyndar öryrkja sömuleiðis. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega var hækkað úr 480.000 krónum á ári í 1.315.200 kr. á ári. Þetta samsvaraði hækkun frítekjumarksins úr 40.000 krónum á mánuði í 110.000 krónur á mánuði. Er frítekjumarkið nú hið sama og gildir gagnvart atvinnutekjum örorkulífeyrisþega. Tilgangurinn er sá að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku öryrkja og eldri borgara til að auka lífsgæði þeirra og virkja krafta þeirra sem vinnuafls.
Þá var í lögunum kveðið á um að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hafi ekki lengur áhrif á greiðslur elli- og örorkulífeyris, þ.e. svokallaðs grunnlífeyris. En sú breyting var gerð 2009 að lífeyrissjóðstekjur töldust til tekna við útreikning elli- og örorkulífeyrisins sem varð þess valdandi að greiðslur til 5.750 elli- og örorkulífeyrisþega lækkuðu eða féllu jafnvel alveg niður. Þessu var því breytt aftur sumarið 2013 enda talið mikilvægt að fólk sjái ávinning af því að greiða í lífeyrissjóði.
Þessar lagabreytingar leiddu til mjög bættra kjara eldri borgara og öryrkja. Bætur hækkuðu hjá yfir 7.000 manns og þar af öðluðust um 2.500 lífeyrisþegar sem misstu bætur í kjölfar sparnaðaraðgerða á árinu 2009 rétt til bóta á ný. Því til viðbótar var áætlað að enn aðrir, tæplega 5.000 manna hópur fólks sem vegna tekna sinna hefur ekki talið sig eiga neinn rétt til bóta frá árinu 2009 vegna þeirra breytinga sem þá voru gerðar, gætu sótt um greiðslur að nýju.
Þá var afturkölluð breyting, sem gerð var 2009 og fól í sér hækkun á því hlutfalli tekna sem hafa áhrif til skerðingar tekjutryggingar til elli- og örorkulífeyrisþega og skerðingarhlutfallið aftur komið niður í 38,35%. Er það afar mikilvægt ekki síst í því ljósi að yfir 90% lífeyrisþegar fá greidda tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins og það er því gríðarlegur fjöldi fólks sem hefur notið góðs af þeirri breytingu í formi hærri bóta en áður. Því til viðbótar lækkaði skerðingarhlutfall heimilisuppbótar en það er leitt af lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Það hefur gert það að verkum að bætur til þeirra lífeyrisþega sem búa einir hafa hækkað hlutfallslega meira en annarra.
Þá verður ósanngjarn auðlegðarskattur sem fyrst og fremst lagðist á eldra fólk ekki framlengdur. Á árinu 2012 greiddu 5.980 aðilar 5,6 milljarða í auðlegðarskatt og viðbótarauðlegðarskatt á hlutabréfaeign var lagður á 4.980 gjaldendur og nam 3,5 milljörðum sem var 44% hækkun milli ára.
Sjálfstæðisflokkurinn vinnur því hörðum höndum að bættum kjörum elli- og örorkulífeyrisþega.
Ásmundur Friðriksson
alþingismaður.