Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sjálfstæðisflokkurinn í sterkri stöðu á Suðurnesjum
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 23:15

Sjálfstæðisflokkurinn í sterkri stöðu á Suðurnesjum

Sjálfstæðisflokkurinn býður nú fram í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum undir sínum merkjum og líka með óháðum í tveimur sveitarfélögum. Sveitarfélögunum fækkar um eitt frá síðustu sveitarstjórnarkosningum en kosið er í fyrsta skipti í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis.
 
Listi með víða skírskotun
Í nýju sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs er öflugur listi Sjálfstæðismanna og óháðra skipaður fólki sem kemur víða að úr atvinnulífinu og samfélaginu. Það er mikilvægt að höfða til kjósenda á víðum grundvelli þar sem flest sjónarmið samfélagsins fái notið sín. Þetta er grunnurinn að góðum lista sem skipar tvo reyndustu menn sína úr báðum sveitarfélögunum í efstu sætin og með þeim er reynt fólk, ungir karlar og konur sem fulltrúar fjölbreyttrar flóru samfélaganna í Garði og Sandgerði. Þar ríkir mikil eftirvænting og mikill byr er með framboði Sjálfstæðismanna og óháðra enda höfðar listinn til margra.
 
Við vinnum saman
Í Reykjanesbæ er barist fyrir endurheimtun meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn. Málefnastaða flokksins er góð og við höfum á að skipa góðum lista fólks með reynslu og nýju fólki sem kemur með sjónarmið nýrrar kynslóðar sem Sjálfstæðisflokkurinn mætir með stefnuskrá sinni undir yfirskriftinni;
 
Við vinnum saman, en helstu málefnin eru;.
Vinnum saman að öflugu atvinnulífi.
Vinnum saman að betri líðan barna og unglinga í Reykjanesbæ.
Vinnum saman að öflugu heilsugæslu.
Vinnum saman að uppbyggingu innviða. 
Vinnum saman að grænum Reykjanesbæ.
Vinnum saman að því að nútímavæðast.
Vinnum saman að íþyngja ekki bæjarbúum.
 
Með samstilltu átaki allra sjálfstæðismanna og þeirra sem aðhyllast frelsi einstaklingsins er Sjálfstæðisflokkurinn eini raunhæfi kosturinn fyrir samfélagið og ekki síst unga fólkið sem vill hafa frelsi og nútímavæðingu að leiðarljósi fyrir framtíðina.
 
Sjálfstæðisflokkurinn í sókn
Í Grindavík er mikill kraftur í öllu starfi sjálfstæðismanna og í kosningunum er stefnt á hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Staða sveitarfélagsins er góð og mikið traust ríkir um góða stöðu sveitarfélagsins sem býr við öflugt atvinnulíf og góða þjónustu við íbúana.
 
Það sama má segja um framboð Sjálfstæðisflokksins og óháðara í Vogum en þar er mikið af ungu fólki valið til forystu og mikil bjartsýni í þeirra röðum um gott gengi.
 
Sjálfstæðisflokkurinn á Suðurnesjum er klár í kosningarnar á laugardag. Í hverju sveitarfélagi eru öflugir listar sjálfstæðismanna og óháðra sem leggja fram skýran valkost fyrir íbúana á hverjum stað þar sem sérstaklega er horft til unga fólksins á Suðurnesjum. Ég hvet alla til að taka þátt í kosningunum og setja X við D á laugardaginn.
 
Ásmundur Friðriksson 
alþingismaður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024