Sjálfboðaliðar í velferðarmálum
– Grétar Guðlaugsson skrifar
Finnst þér ekki kominn tími til að stíga örlítið út fyrir þægindarammann. Huga að því að öllum líði sem best í bænum okkar og aðstoða náungann ef hann er aðstoðar þurfi.
Víða í kringum okkur er unnið öflugt sjálfboðaliðastarf í félagasamtökum svo sem í íþróttahreyfingunni, björgunarsveitum og víðar. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ vill efla sjálfboðastarf í bænum með því að ráða verkefnastjóra sem hefur það að markmiði að halda utan um þau verk sem bæjarbúar geta unnið í sjálfboðastarfi á sviði umhverfis-, félags- og velferðarmála. Þannig má auðvelda þeim sem áhuga hafa á að aðstoða þá sem minna mega sín í samfélagi okkar og stuðla um leið að því að þessum hópi líði betur.
Margir þarfnast aðstoðar við hversdagslega hluti og enn fleiri sem geta aðstoðað á marga vegu til dæmis við að fara út í búð að versla, hirða garða og hvað eina sem fólki vantar aðstoð við í lífinu. Nú þegar er unnið öflugt sjálfboðastarf á vegum margra félagasamtaka og stofnana í bæjarfélaginu. Þennan þátt viljum við efla og styrkja með því að ná að virkja sem flesta íbúa í Reykjanesbæ. Slíkt sjálfboðastarf er vel þekkt í mörgum löndum í kringum okkur og hefur reynst afar vel.
Einnig viljum við skapa íbúum okkar betri tækifæri og aðstöðu til að rækta upp svæði og gróðurreiti í bænum. Við viljum gera það með því að opna upplýsingatorg fyrir íbúa, húsfélög, félagasamtök og aðra áhugasama aðila sem geta leitað svara við gróðurtengdum spurningum og ekki síður veitt svör. Þar mun skapast tækifæri fyrir áhugasama sjálfboðaliða og sérfræðinga í gróðurrækt, t.d. í samstarfi við Skógræktarfélag Suðurnesja, að veita góð ráð og setja fram tillögur um gróður verkefni.
Með þessu viljum við í Sjálfstæðisflokknum gera góðan bæ betri og stuðla að því að öllum líði vel í bænum okkar.
Grétar Guðlaugsson
frambjóðandi D-lista Sjálfstæðisflokksins