Sjálfbæran sjávarútveg
Með vistvænni fiskveiðistjórnun má efla atvinnustig, hlífa sjávarbotni og spara dýrmætan gjaldeyrir sem í dag er sólundað í olíuinnkaup fyrir orkufrekan stórskipaflota. Með aukinni sókn smábáta með kyrrstæð veiðarfæri, línu, færi og net, samhliða aukinni fullvinnslu afurða er hægt að skapa hundruð starfa í byggðum landsins. Ákvörðun um að skerða aðgengi þungra veiðarfæra að grunninu myndi nýtast langt inn í framtíðina bæði okkur og komandi kynslóðum til góða. Veiðistjórnun sem miðar að þessu er líkleg til þess að leiða af sér sjálfbæran útveg sem gefur góðan afla án þess að ganga á stofnana skerða skilyrði þeirra.
Auðlind þjóðarinnar
Frá því kvótakerfinu var komið á hafa aflaheimildirnar færst á æ færri hendur með tilheyrandi byggðaröskun. Koma þarf á réttlátara kerfi þar sem þjóðin öll nýtur auðlindanna. Stjórnvöld hafa setið aðgerðarlaus undir áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem finnur að núverandi kerfi þar sem framseljanleg og veðsetjanleg réttindi fela í sér mismunun. Kerfi sem býður upp á það að handhafar aflaheimilda selji kvótann úr byggðalaginu er kerfi sem ekki er búandi við. VG vilja nýta þau tækifæri sem gefast til þess að ná auðlindum hafsins aftur til þjóðarinnar og að sama skapi vill flokkurinn tryggja að auðlindum landsins, s.s. jarðhita og fallvötnum, verði ráðstafað af hófsemi með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Rétt þjóðarinnar til auðlinda sinna þarf að binda í stjórnarskrá.
Réttlæti er lykilorðið
Aflaheimildir verða ekki innkallaðar með offorsi og hasti heldur með hófsömum hætti í samráði við aðila innan greinarinnar. VG hafa sett fram tillögu um 20 ára innköllunartíma með innbyggðri aðlögun fyrir núverandi handhafa. Við endurúthlutun yrði 1/3 ráðstafað til sveitarfélaga, 1/3 færi á opinberan leigumarkað og 1/3 yrði boðin þeim sem innkallað hefði verið frá á grundvelli afnotasamnings. VG eru þó reiðubúin til þess að skoða aðrar leiðir sem leiða til réttlátari skiptingu auðlindarinnar þjóðinni til heilla. Réttlæti er lykilorðið.
Bergur Sigurðsson, skipar 4. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi.