Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sílamávurinn
Mánudagur 24. apríl 2006 kl. 10:29

Sílamávurinn

Mávurinn er talinn fugla fyrstur til að boða komu vorsins. Kjörlendi hans eru hrjóstrug, óræktuð bersvæði.

Á Miðnesheiði er sílamávur sagður verpa í þúsundatali og af honum stafi hætta í flugumferð vallarins. Þeir hafa sogast inn í þotuhreyfla og eyðilagt þá. Í frétt síðastliðið sumar sagði að í vísindaskyni, til fimm ára, ætti að friða ref á Miðnesheiði í þeim tilgangi að fæla þaðan mávinn. Þess var og getið að fylgst hefði verið með ref þar sem mávar verptu og að hann hafi horfið. Nokkru áður var sagt að sveit, sérbúin til að skjóta máv, hafi farið námsferð til U.S.A. og að þar hafi verið beitt sprengjuvörpum til að fæla fugla frá flugbrautum. Í kjölfar fréttarinnar í fyrrasumar voru blaðaskrif þar sem fólk lét í ljósi skoðun sína á því hvernig bregðast mætti við veru mávsins og er það vel, því að þörf er á varanlegri lausn þessa þáttar í öryggi flugsins hér.

Til langs tíma litið ætti markmiðið að vera að minnka kjörlendi mávsins og koma í veg fyrir aðgengi hans að æti. Stuðla mætti að fjölbreyttum gróðri á Suðurnesjum. Nokkuð er um lúpínu á víð og dreif og væri hægt að stórauka útbreiðslu hennar til að auka möguleika annars gróðurs á uppblásnu og gróðurvana berangrinu. Nýta mætti húsdýraáburð, gras og annað sem til fellur af lóðum í kringum híbýli manna og því mikla graslendi sem er á vegum sveitarfélaganna.

Nú færum við okkur út á Reykjanes, einn af fjölsóttu ferðamannastöðunum hér. Kríuvarpið þar er mjög sérstakt þar sem það er innan hitasvæðis og eitt fárra slíkra sem vitað er um á jörðunni. Heimreiðin að vitavarðahúsinu og afleggjarinn að Hveravöllum liggja í gegnum varpland kríunnar, þeir gætu verið göngustígir og akstursvegurinn komið í framhaldi af nýja veginum og liggja fyrir ofan (norðan) Vatnsfellið sem Reykjanesvitinn stendur á og út að Valahnúk og vitavarðahúsinu.

Nokkuð mörg ár eru síðan loðnubræðsla var reist á Reykjanesi. Henni var valinn staður ekki langt frá þar sem salt var unnið úr jarðsjó. Bræðsla á loðnunni var rétt hafin þegar ævintýrið var úti og loðnan sem ekið hafði verið, alla þessa leið, á opnum flutningabílum var látin úldna niður í hraunið. Þarna eru nú þurrkaðir þoskhausar og hengd upp skreið, vinnsla sem sjáanlega vex fiskur um hrygg. Þessi vanhugsaða leyfisveiting hefur hænt mávinn að og nú verpir hann þar allt um kring.

Fyrir nokkrum árum var lagt til að prófað yrði að stugga við mávnum með gervirefum líkt og gert er með uglum úr plasti og gefist hefur vel við að fæla stara og dúfur, vegna óþrifnaðar á t.d. bílastæðum stórmarkaða. Komið hefur fram í blaðaskrifum og í viðtali við æðardúnsbónda, að með aðstoð hunds, hafi hann haft upp á mávshreiðrunum og stungið gat með prjóni í báða enda eggjanna, svo þau klektust ekki út, og þannig komist fyrir fjölgun fuglsins. Mávurinn hafði legið á eggjunum en ekki flutt sig til í varplandinu eins og gerist ef hann er rændur, eftir nokkur sumur var hann horfinn. Eins og að ofan greinir á að friða refinn og fylgjast með hegðan hans á Miðnesheiði en þar er búsvæði fleiri fuglategunda t.d. mófugla og spurning um afdrif þeirra.

Mávurinn er talinn skaðvaldur í varpi og áhugavert væri að reyna aðferð bóndans á Reykjanesi.

S.B.

Mynd: Hveravellir á Reykjanesi og saltverksmiðjan.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024