Sigurstranglegt sóknarlið
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi er haldið á morgun, laugardag. Ég hvet alla sjálfstæðismenn í kjördæminu til þess að kjósa í prófkjörinu og taka þannig þátt í því að stilla upp sigurstranglegu sóknarliði fyrir kosningarnar í vor. Sóknarliði sem endurspeglar breidd og styrk okkar góða kjördæmis. Suðurkjördæmi er sterkt vígi Sjálfstæðisflokksins og því mikilvægt að við fjölmennum og sýnum þann kraft sem í okkur býr.
Ég býð mig fram til forystu og sækist eftir 1. sæti listans. Okkar bíður mikilvægt verkefni við endurreisn okkar góða samfélags. Ég heiti því að vinna vel og af heilindum að baráttumálum flokksins okkar og kjördæmisins fái ég til þess brautargengi frá ykkur, kæru kjósendur.
Sjálfstæðisstefnan í öndvegi
Þau tímamót sem íslenskt samfélag stendur nú á fela í sér nýjar og kröftugar áskoranir til okkar allra. Áskoranir sem kalla á breytingar, ný vinnubrögð og kraftmikla sókn í þágu þess sem mestu skiptir. Mig langar að taka þátt í þeirri sókn og mig langar að gera það á heimaslóðum mínum í Suðurkjördæmi - í þágu þess fólk sem þar býr og starfar.
Nú sem fyrr eru lausnirnar fólgnar í frelsi einstaklingsins, en ítreka þarf að því frelsi verður að fylgja sú ábyrgð sem nokkuð virðist hafa vantað á undanförnum árum. Lausnirnar eru því að stærstu leyti fólgnar í grunngildum sjálfstæðisstefnunnar, en þær eru líka fólgnar í nýjum leiðum og nauðsyn þess að endurmeta okkar áherslur og aðferðir. Þannig verðum við að skipuleggja allar okkar aðgerðir í nánu samráði við fólkið sjálft; við verðum að leggja fram skýra áætlun um það sem framundan er; og við verðum að endurheimta þá bjartsýni sem á og verður að einkenna okkar góða samfélag. Við eigum hátt og snjallt að hafna atvinnuleysi og boða aðgerðir sem tryggja atvinnu fyrir alla; við eigum líka hátt og snjallt að hafna misrétti og boða jafnrétti fyrir alla; og við eigum hátt og snjallt að hafna auknum ríkisafskiptum og boða tækifæri fyrir alla.
Stuðningur þinn er mikilvægur
Prófkjörsbaráttan hefur verið stutt og snörp. Á síðastliðnum vikum hef ég farið um allt kjördæmið, fundað með sjálfstæðismönnum og kynnt mér áherslumálin á hverjum stað. Ég hef fundið fyrir afar góðum stuðningi og mikilli hvatningu frá sjálfstæðismönnum í kjördæminu. Ég er mjög þakklát fyrir það og einnig fyrir ómetanlega aðstoð alls þess góða fólks sem hefur lagt mér lið í baráttunni. Ég ítreka hvatningu mína til ykkar kæru sjálfstæðismenn um að tryggja góða þátttöku í prófkjörinu og óska eftir ykkar stuðningi í 1. sæti listans.
Höfundur er alþingismaður og býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.