Sigurrós Þorgrímsdóttir sigraði hæfileikakeppni Holtaskóla
Þann 17. febrúar sl. var Hæfileikakeppni Holtaskóla haldin í fyrsta sinn. Nemendur buðu upp á söngatriði, vélmennadans, hljómsveit, rapp og heimagerða teiknaða stuttmynd, en sú síðastnefnda var hugverk Sigurrósar Þorgrímsdóttur, nemanda í 9. bekk. Dómnefndinni þótti framlag hennar bera vott um mikla hæfileika og veittu henni sigurlaunin, sem voru pizzuveisla fyrir allan bekkinn hennar í boði foreldrafélagsins.
Það er mikið um að vera í Holtaskóla þessa dagana, enda árshátíð skólans næsta föstudag. Þar gefst fólki kostur á að sjá stuttmynd Sigurrósar auk þess sem fjölmargir nemendur koma fram með ýmiskonar atriði. Til dæmis má nefna Kór Holtaskóla, sem er nú á sínu fjórða starfsári og einnig kemur fram hljómsveit sem skipuð er nemendum á unglingastigi. Foreldrar eru hvattir til að mæta á árshátíðina til að njóta veitinga og skemmtiatriða.