Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Sigurbjörgu svarað - Horfum til framtíðar
Þriðjudagur 27. september 2005 kl. 13:58

Sigurbjörgu svarað - Horfum til framtíðar

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lagði fram bókun á fundi bæjarstjórnar þann 20. sept. sl. Í netútgáfu Víkurfrétta þann 22. sept. gerir Sigurbjörg Eiríksdóttir bæjarfulltrúi í Sandgerði athugasemdir við orðalag bókunarinnar og spyr “hvað kallar Björk meirihluta”.

Það kemur fram í skrifum Sigurbjargar að hún er afar ánægð með þá samstöðu sem náðst hefur í bæjarstjórn Sandgerðis þar sem allir bæjarfulltrúar lýsa yfir andstöðu á sameiningu þessara þriggja sveitarfélaga, Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis. Þess vegna er það eflaust nokkuð súrt í broti að í bókun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar skuli aðeins vera talað um meirihluta. Bæjarfulltrúar í Sandgerði og Garði, aðallega úr meirihluta, hafa lýst skoðunum sínum í fjölmiðlum og það áður en skýrsla um kosti og galla sameiningar kom fyrir augu almennings, á þann veg að sameining sé ekki góður kostur. Það er staðreynd. Hvað bæjarstjórn Sandgerðis hefur aðhafst síðar, er allt annað mál. En Sigurbjörgu er velkomið að hártoga þetta orðalag að vild, ef henni sýnist það gagnast málinu.

Hins vegar er umræðan öll um sameiningarmálið af mjög tilfinningalegum toga. Slíkt er ekkert óeðlilegt. En nú er tími til að horfa til framtíðar og hefja umræðuna á það stig að meta málið út frá því hvað er best fyrir íbúa þessa svæðis til framtíðar litið. Ég tel það hlutverk kjörina sveitarstjórnarmanna að um leið og þeir hugsa um hag síns sveitarfélags, eigi þeir einnig að horfa til framtíðar. Með það í huga er skynsamlegt að sameiningin nái fram að ganga á þessu svæði. Það eru hagsmunir allra sem hér búa að hér sé eitt stór öflugt sveitarfélag, í atvinnulegu tilliti jafnt sem í öðrum þeim málaflokkum sem sveitarfélögin sinna nú þegar og þeim möguleikum sem stórt og öflugt sveitarfélag hefur, til að takast á við ný verkefni. Með því verður þjónustan nær þeim sem þiggja hana. Samkeppnin á ekki að standa á milli sveitarfélaganna þriggja, heldur við höfuðborgrsvæðið og önnur þjónustusvæði á landinu.

Að lokum vil ég hvetja íbúa þessara þriggja sveitarfélaga til að kynna sér kosti og galla málsins og taka síðan sjálfstæða ákvörðun um framtíð Reykjaness og íbúa þess.

Björk Guðjónsdóttir,
forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024